148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[17:01]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að sjá til hvort ég fer ekki í ræðu á eftir og fari þá aðeins meira út í þá sálma, hvernig það allt saman virkar, en ég ætla ekki að nýta þetta andsvar í það að svo stöddu.

En að því sem hv. þingmaður nefnir. Í 2. mgr. 24. gr. laga um opinber fjármál kemur fram, með leyfi forseta:

„Ráðherra tekur ákvarðanir um ráðstöfun fjár úr varasjóði og gerir fjárlaganefnd Alþingis grein fyrir nýtingu þess þegar ákvörðun liggur fyrir.“

Þetta virkar á mig sem mjög skynsamlegt og í raun mjög einfalt — ég er að reyna að segja „no-brainer“ á íslensku, en kann það ekki akkúrat núna. Mér finnst alla vega mjög augljóst að svona ætti þetta vera. En ég velti því líka fyrir mér hvernig það gerist í júlí eða þegar þing er ekki að störfum. Það er nú annað leiðindavandamál sem ég kem kannski inn á í ræðu á eftir, ég sé til. En alla vega held ég að það sé einsýnt að þingið þurfi að koma meira að þessu. En þá kemur þetta vandamál að þingið er alltaf, eða langoftast, að hugsa hlutina út frá hagsmunum ríkisstjórnar; (Forseti hringir.) nefnilega að hún haldi velli og nái sínu fram. Það eru meirihlutavandræðin sem ég hef greinilega ekki tíma til að fara í hér en ég kem kannski nokkrum orðum að því á eftir.