148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[17:03]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er með tvær athugasemdir og eina spurningu. Varðandi menntamálin heyrði ég að þegar væri byrjað að gera ráð fyrir fjárauka fyrir 2018, t.d. fyrir framhaldsskóla, í upphafi 2017. Gert var ráð fyrir fjárauka strax 2017. Ráðuneytin vinna samkvæmt því að þau endi í lok árs á fjárauka. Þá hugsun þurfum við að stoppa.

Athugasemd tvö: Við heyrum oft innan húss: Hér var farið eftir lögum. Nú getum við gert þá athugasemd að ekki var farið eftir lögum, þótt ég sé ekki að setja á mig neinn dómarahatt finnst mér það mjög augljóst.

Spurningin er um freistnivandann sem hv. þingmaður kom inn á. Þar sé ég tækifæri fyrir fjárlaganefnd og þingið að vera rosalega virkt í eftirliti með framkvæmd fjárlaga. Það er ákveðinn freistnivandi að grafa sig inn í varasjóðina en á móti á að vera virkt eftirlit með framkvæmd fjárlaga, með því hvort þetta sé eðlileg notkun eða ekki.