148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[17:05]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég reyndar verð að viðurkenna að í umræðunni um fjárlagagerðina á síðasta ári, í umræðunni um hin nýju lög um opinber fjármál og í umræðum innan ráðuneytanna, var mjög áberandi umræða um að fjáraukar heyrðu sögunni til, það væri þá í algerum undantekningartilvikum sem hægt væri að grípa til slíkra ráðstafana vegna umtalsverðra, ófyrirséða eða óvæntra útgjalda. Í þessum fjárauka eru alveg slík útgjöld, eins og mætti nefna varðandi fyrirframgreiðslu skulda og vaxtakostnað vegna þeirra. En ég tel þau vel uppfylla þær kröfur sem gerðar eru.

En það væri lag ef við viljum bæta framkvæmdina, því að ég held að það sé alveg skýrt að við vinnum ekki í takti við lögin á þennan hátt, að framkvæmdarvaldið geri miklu oftar grein fyrir framkvæmd fjárlaganna þannig að sjá megi hvers sé að vænta.