148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[17:39]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Já, frú forseti. Ég tel óhætt að segja að það hefði mátt teljast jafnvel eðlileg varkárni að þegar svona miklir hagsmunir eru annars vegar, svona mikil óvissa ríkir um verðmæti þessara eigna, þegar blasir við að þessar eignir kunna að vera afar vandmeðfarnar og kostnaðarsamar í allri þeirri meðhöndlun sem þær þurfa á að halda, líka við að innheimta þær, þá hefði kannski farið betur á, ætla ég að leyfa mér að segja, að þessu atriði hefði ekki verið steypt inn í þennan farveg fjáraukalagafrumvarps með afgreiðslu sem einkennist af ákveðinni fljótaskrift, verður auðvitað að segjast. Ég held að allir myndu gangast við því, enda þótt menn hafi kostað kapps um að vanda vel til verka, og voru svo sannarlega allir tilburðir uppi til þess af hálfu nefndarinnar, þá sýnist kannski meiri fljótræðisbragur á þessu en maður hefði kosið þegar svo miklir hagsmunir eru undir og viðkvæmir. Við skulum líka muna að við erum að tala um afar mikilvægan þátt í fjárhagsbúskap ríkissjóðs sem er fjárhagslegt samband ríkissjóðs og Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Og þegar jafn mikil álitamál virðast uppi varðandi umræddar eignir og blasir við og það án þess að lagðar hafi verið fram upplýsingar sem með neinu móti mættu teljast fullnægjandi.