148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[18:10]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er svo skrýtið með lögin og þetta allt saman. Við erum náttúrlega með ákvæði um fjáraukalögin og hvað megi vera í þeim og hvaða skilyrði þurfi að uppfylla. Við erum búin að fara yfir það ítrekað hvað sé ófyrirséð og óvænt og ekki hægt að komast hjá. Menn virðast geta túlkað það mjög frjálslega, svo maður orði það þannig. Við höfum verið að tala t.d. um fjárveitingar vegna sauðfjárbænda og framlög til kirkjunnar. Maður veltir fyrir sér hvernig í ósköpunum sé hægt að tukta okkur til, og ég er ekkert að tala núna bara til núverandi ríkisstjórnar heldur okkur almennt í þessu sambandi.

Ég fagnaði því sérstaklega þegar var verið að fella niður framlengingu á því að nemar í iðnnámi þyrftu að greiða efniskostnað. Síðan var vakin athygli á því að þetta væri með sérstökum hætti því það fylgdi engin sérstök fjárveiting til að mæta þeim kostnaði sem félli þá á skólana. Það vill svo vel til að núna liggur fyrir breytingartillaga við fjárlagafrumvarpið sem gengur akkúrat út á það og er frá Pírötum, ég man ekki hvort voru fleiri á málinu, upp á sömu upphæð. Þess vegna verður mjög fróðlegt að sjá hvort menn ætli bara fyrir fram að ákveða að þetta eigi að fara á fjáraukalög eða fylgja eftir þessari breytingartillögu við sjálft fjárlagafrumvarpið sem felur í sér þessa breytingu, að samþykkja breytingartillögu um þær 300 milljónir sem tillagan kostar. Ég bíð mjög spenntur og væri gaman að vita hvort hv. þingmaður er jafn spenntur og ég að sjá hvernig farið verður með þetta.