148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[18:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lýsti hérna tilgátu minni fyrr í dag í atkvæðagreiðslu þar sem ég spáði því að meiri hlutinn myndi greiða atkvæði gegn öllum tillögum minni hlutans. Ég er raunverulega bjartsýnn núna á að hægt sé að hrekja þessa bölvuðu tilgátu mína, því auðvitað er hún hræðileg ef hún er sönn. Ég vona alla vega eins og hv. þingmaður að það takist í þessu tilfelli að fá meiri hlutann til að samþykkja tillögu frá minni hlutanum. Það væri afskaplega skemmtilegt að sjá það, jafnvel þótt það væri auðvitað vegna þess að það var að frumkvæði meiri hlutans að tillagan var dregin til baka og sú gjörð gerði það nauðsynlegt að veita aukafjármagn. Ég er spenntur fyrir því og vona vissulega að tilgáta mín falli.

En hv. þingmaður spyr hvernig sé hægt að tukta okkur til. Ég held að ofboðslega stór hluti vandamálsins sé þetta óheilbrigða samband milli Alþingis og ríkisstjórnar, löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins, og ég held að alveg ofboðslega margt myndi lagast við það að gera þau skil skýrari og raunverulegri. Sömuleiðis held ég að við höfum vanrækt stjórnarskrána okkar. Þau öfl sem eru á móti þeim breytingum hafa staðið í vegi fyrir þeim, því miður. Ég held að mikið af efni í frumvarpi stjórnlagaráðs og í kjölfarið frumvarpi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á 141. þingi sé algerlega umræðunnar virði. Ég held að ef við myndum bara sökkva okkur í efnisumræðu um það plagg myndum við öll koma auga á fullt af lausnum á alls konar svona vandamálum hér á bæ sem allir þingmenn ættu að geta sætt sig við, og ríkisstjórnin ef út í það er farið. En því miður virðist sem áhuginn sé of lítill á því mikilvæga máli. Það er mjög leiðinlegt því að stjórnarskráin er rótin að öllu sem við gerum hér, rótin að öllum þeim ástæðum (Forseti hringir.) sem við gætum haft fyrir að vera hér til að byrja með.