148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta hv. fjárlaganefndar um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2018, 3. umr. Nefndin hefur fjallað um málið að nýju eftir 2. umr. eins og reyndar venjan er.

Fyrst vil ég víkja að umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem m.a. eru gerðar athugasemdir við aðhaldskröfu í frumvarpinu vegna framlags til tónlistarnáms. Meiri hlutinn taldi rétt að árétta að meiri hlutinn er meðvitaður um að viðræður eru að hefjast um endurskoðun gildandi samkomulags um stuðning við tónlistarfræðslu og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms. Meiri hlutinn telur eðlilegt að í þeim viðræðum verði leitast við að skýra nánar hvernig framreikna skuli framlög til tónlistarfræðslu ásamt því að samið verði um viðbótarframlög ef í ljós kemur að framlög á fjárlögum hafi verið vanreiknuð. Meiri hlutinn gerir þó ekki tillögu að breytingum vegna þessa mál.

Meiri hlutinn gerir tillögu um eftirfarandi breytingar sem er að finna á sérstöku þingskjali sem fela í sér tvær viðbætur við gjaldahlið og fjórar millifærslur til leiðréttingar auk þess sem lagðar eru til breytingar á 5. og 6. gr. frumvarpsins.

Þær tvær breytingar sem fela í sér auknar útgjaldaheimildir eru annars vegar tillaga um 7 millj. kr. tímabundið framlag í tvö ár til utanríkisþjónustunnar sem verði nýtt til að bjóða fyrrverandi forseta Íslands aðstoð og þjónustu vegna ýmissa verkefna sem áfram eru á hans borði eftir að hann hefur látið af embætti. Áætlað er að viðbótarkostnaður utanríkisráðuneytis vegna þessa nemi allt að 7 millj. kr. á ári, um 5,5 millj. kr. vegna launakostnaðar og um 1,5 millj. kr. vegna ferðakostnaðar.

Í nágrannalöndunum er viðtekin venja að fyrrverandi þjóðarleiðtogum bjóðist slík þjónusta og fyrrverandi forseta Íslands, frú Vigdísi Finnbogadóttur, var tryggð aðstoð og þjónusta af þessu tagi.

Þá gerir meiri hlutinn tillögu um tímabundið framlag til Norræna eldfjallasetursins á Jarðvísindastofnun Háskólans Íslands, 10 millj. kr. Mörg undanfarin ár hefur fjármögnun setursins verið skipt milli Norrænu ráðherranefndarinnar og íslenska ríkisins en nú hefur verið ákveðið á vettvangi ráðherranefndarinnar að draga úr fjárframlögum til samnorrænna stofnana og þar með eldfjallasetursins næstu ár og hætta þeim að lokum alveg árið 2023. Setrið gegnir mikilvægu hlutverki í viðbrögðum við eldgosavá enda er þar bæði tækjabúnaður og sérþekking á ákveðnum sviðum eldfjallafræði sem hvergi er til annars staðar hér á landi. Með framlaginu er ætlunin að vega að hluta til upp skerðingu fjárveitingar frá Norrænu ráðherranefndinni árið 2018.

Þessar tvær tillögur fela sem sagt í sér viðbætur við gjaldahlið, en aðrar tillögur eru leiðréttingar og lagfæringar og fela í sér millifærslur.

Síðan er meiri hlutinn með breytingar við 5. og 6. gr. frumvarpsins. Við 5. gr. gerir meiri hlutinn þá tillögu að lánsfjárheimild Vaðlaheiðarganga verði hækkuð um 1.000 millj. kr. Er það til samræmis við samþykkt Alþingis frá 1. júní á þessu ári í sérstökum lögum um heimild til handa ráðherra fyrir hönd ríkissjóðs til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði. Í þeim lögum er gert ráð fyrir að gerð sé grein fyrir lánsfjárhæð hvers árs í frumvarpi til fjárlaga fyrir það ár. Er það nú gert með þessari breytingu og til samræmis við þá breytingu sem Alþingi samþykkti fyrr í sumar.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið í þessu nefndaráliti og gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum.

Undir álitið rita eftirtaldir hv. þingmenn meiri hluta hv. fjárlaganefndar Willum Þór Þórsson, Haraldur Benediktsson, Ásmundur Friðriksson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Njáll Trausti Friðbertsson.