148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:57]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Nú er komið að lokum þessarar umræðu, þ.e. 3. og síðustu umræðu fjárlaga. Ég verð að segja það að ég er mjög ánægð með það frumvarp til fjárlaga sem við leggjum fram og þær viðbætur sem hér eru undir, 18 milljarðar til viðbótar, við erum með heildarútgjöld upp á í kringum 800 milljarða. Ég er sannfærð um að þær aðgerðir sem núverandi ríkisstjórn leggur áherslu á munu koma sér vel. Ég tek það fram að við töluðum um milli 40 og 50 milljarða útgjöld í kosningabaráttunni, þetta eru næstum því helmingurinn af því á fyrsta ári sem ég tel bara nokkuð vel af sér vikið. Við lögðum áherslu á það sem landinn kallaði eftir, alla vega í samtali við okkur, þ.e. heilbrigðismálin, menntamálin og samgöngurnar og við erum að auka samneysluna.

Það er auðvitað mjög margt undir og það sem hér er lagt til kemur öllum íbúum landsins vel. Það kemur öllum vel þegar verið er að byggja upp heilbrigðisþjónustuna, þegar verið er að byggja upp menntamálin, þegar verið er að laga samgöngur. Það er alveg ljóst að það kemur öllum vel. Það verður heldur ekkert of oft sagt að margt á enn eftir að gera og þarf að gera enda er verkefnið rétt að hefjast.

Það var mikið talað um það í kosningabaráttunni að hækka frítekjumark og það var helsta áherslumál eldri borgara. Við leggjum það til. Það var mikið talað um að geðheilbrigðisþjónustu væri áfátt og ábótavant. Við styrkjum geðheilbrigðisþjónustu verulega. Aðgerðaáætlun um kynferðisbrot er fullfjármögnuð og svo mætti lengi telja.

Tannlækningar eldri borgara og öryrkja. Ég vil vekja athygli á því í sambandi við það að nú er náð því markmiði sem ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna setti sér fyrir nokkuð mörgum árum um tannlækningar barna undir 18 ára aldri. Það verður fullnustað um áramótin sem er vel. Í það hafa verið settir fjármunir undanfarin ár. Allt skiptir þetta máli.

Fram undan er verkefnið að ræða við öryrkja um þeirra kjör og hvaða leiðir og aðferðir eru best til þess fallnar að bæta aðstöðu og kjör þeirra. Það er einmitt tekið fram í stjórnarsáttmálanum að viðræður ríkisstjórnarinnar við Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp um leiðir og hvað sé best að gera verði hafnar fljótlega á komandi ári. Ég held að það sé skynsamlegt. Það var búið að reyna viðræður í mun stærri hópi og tókst ekki vel. Öryrkjabandalagið sagði sig frá þeim þannig að nú á að reyna að nálgast það með heildstæðum hætti.

Auðvitað má gera betur á miklu fleiri stöðum en gert hefur verið fram til þessa. Ég hef engar efasemdir um það að við munum halda áfram í þeim verkefnum sem við höfum hafið og byrja á þeim sem eftir eru.

Það er líka mikilvægt að efla eigi þingið, bæði þingstörfin, þ.e. nefndasvið og þingflokka, en ekki síður húsnæðið. Það hefur stundum verið gagnrýnt að byggja við Alþingishúsið skrifstofubyggingu, en það kemur til með að spara ríkinu stórar fjárhæðir þegar fram í sækir sem ætti að geta skilað sér inn í samneysluna.

Ég held að við sem stöndum að fjárlagafrumvarpinu getum verið ánægð með það sem þar er lagt til og við stöndum keik með því sem við leggjum fram án þess að neita því að það megi gera ýmislegt fleira. Það er eins og alltaf er. Eins og ég hef stundum sagt áður og í andsvörum þá fengum við ekki nægjanlegan stuðning, þeir flokkar sem vildu fara ýmsar aðrar leiðir t.d. í tekjuöflun. Það eru auðvitað verkefni fram undan við að fara ofan í það hvernig við styrkjum enn frekar ríkisreksturinn, ég held að það sé skynsamlegt. Það eru mjög skiptar skoðanir á þingi um það, heyrist mér, og hefur heyrst í þessari umræðu hvernig megi gera það svo vel sé, afar skiptar skoðanir sem komu fram í umræðunni. En það er ein af grunnforsendum þess að hægt sé að reka ríkissjóð til framtíðar með aukinni samneyslu. Ég hef ekki áhyggjur af því að okkur takist ekki að lenda þeim málum.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég segi það bara enn og aftur að ég er ánægð með þetta frumvarp. Ég er ánægð með þær viðbætur sem við höfum lagt til við það. Ég er sannfærð um að styrking á heilbrigðiskerfinu bæði á höfuðborgarsvæðinu en ekki síður úti á landsbyggðinni skiptir máli. Það má alltaf gera betur. Ég hef engar efasemdir um það. En ég held að þetta séu fyrstu skref til þess að tryggja það að við komumst af stað og verkin verði látin tala þannig að það verði enn þá öflugra starfið á heilbrigðisstofnunum, í menntamálunum og í samgöngunum sem hafa kannski fengið allt of lítið rými í þessari umræðu.