148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[19:08]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hjó eftir því að hv. þingmaður sagði átak gegn kynferðisofbeldi sem boðað hefur verið af ríkisstjórninni væri fullfjármagnað. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann hvernig hún sér fyrir sér að koma lögreglunni á Íslandi til aðstoðar sem hefur um árabil verið stórlega undirmönnuð. Tillögur ríkisstjórnarinnar í fjárlagafrumvarpinu eru þess eðlis að rúmlega 100 milljónir eiga að fara í tölvukerfi sem á að þjóna brotaþolum svo þeir geti fylgst með málum sínum inni í kerfinu, en óvíst er hvernig það á að þjóna hagsmunum brotaþola að fá að fylgjast með því mánuðum saman og árum saman að málin þeirra komast ekkert áfram af því að það er ekkert starfsfólk til þess að sinna þeim. Nú er það svo að lögreglan er stórkostlega undirmönnuð. Það þarf a.m.k. 200 lögreglumenn og -konur til þess að gæta öryggis borgaranna. Það er þetta fólk sem á að vinna þá vinnu að gæta hagsmuna brotaþola, að gæta öryggis borgaranna, en þess sjást hvergi merki í fjárlagafrumvarpinu að ríkisstjórnin hugsi út í þetta. Við gætum ekki öryggis borgaranna eða brotaþola kynferðisofbeldis með því að setja bara peninga í tölvukerfi. Það þarf að efla löggæslu í landinu.