148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[19:10]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Ég tek undir þetta. Það vantar lögreglumenn. Ég er ekki viss um að margir af núverandi þingmönnum hafi talað jafn mikið um löggæsluna eins og sú sem hér stendur undanfarin ár, þannig að ég tek heils hugar undir það að hana þurfi að efla og við þurfum að hrinda löggæsluáætlun sem er í drögum enn þá í framkvæmd. Tek undir það.

Það er hins vegar svo að verið er að setja í kringum 240 milljónir í aðgerðaáætlunina, það var það sem ég sagði, aðgerðaáætlun um kynferðisafbrot er fullfjármögnuð. Það er þannig. Getum við gert meira og betur? Já, alltaf. Í þessum málum sérstaklega.

Það fara í kringum 180 milljónir til lögreglunnar sérstaklega í þessi mál og annað fer svo m.a. til héraðssaksóknara og fleira. Ég held að meðan a.m.k. áætlunin er fullfjármögnuð sé hægt að horfa á það hvernig næstu skref verða tekin. Það var það sem ég sagði áðan. Ég tek hins vegar undir með hv. þingmanni varðandi lögregluna heilt yfir að hana þurfum við að efla. Það hefur aldrei staðið á mér að gera betur í því.