148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[19:11]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. 180 milljónir er brotabrot af því sem nauðsynlegt er. Ef við ætluðum að fjölga lögreglumönnum upp í það sem var fyrir tíu árum síðan, árið 2007, þyrftum við einn milljarð inn í þennan málaflokk. Að fjármagna aðgerðaáætlun — hver er sú aðgerðaáætlun? Nú verð ég bara að spyrja hv. þingmann: Hver er þessi aðgerðaáætlun sem boðuð er til þess að stemma stigu við kynferðisofbeldi á Íslandi, til þess að reyna einhvern veginn að loka á þetta ófremdarástand? Það hafa aldrei jafn margir leitað á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis sem er starfrækt á Landspítalanum í Fossvogi eins og þetta ár. Aldrei. Það er staðan. Við þurfum miklu meira en að setja bara nokkrar milljónir í einhverja aðgerðaáætlun sem enginn veit út á hvað gengur, eitthvert tölvukerfi, nokkra aura í löggæsluna. Það þarf að gera svo miklu betur. Hvers vegna sjást þess ekki merki þegar verið er að skreyta umræðuna með því að það sé verið að vinna eitthvert ákveðið verk? Það sést ekki í fjárlagafrumvarpinu.

Þess vegna spyr ég: Hvernig ætlið þið að gæta öryggis borgaranna? Hvers vegna segist þið vera með fullfjármagnaða aðgerðaáætlun þegar maður sér hvergi hvernig eigi að gera þetta eða hver sú aðgerðaáætlun er?