148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[19:13]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt og sem betur fer hafa kannski þær byltingar sem hér hafa orðið, hvort sem það er #metoo eða eitthvað annað sem hefur átt sér stað undanfarið, valdið því að upp á yfirborðið hafa komið fullt af konum sem annars hefðu ekki stigið fram og leitað m.a. til neyðarmóttöku eða í athvarf eða annað slíkt. Það er alveg ljóst. Sem betur fer. Auðvitað bregðumst við við. Styrking á heilbrigðiskerfinu tekur líka á því að sjálfsögðu. Þess vegna segi ég: Sú styrking kemur fólki til góða, sem betur fer.

Mér finnst hér vera gert lítið úr þeim fjármunum sem settir eru í þetta. Af því að hv. þingmaður telur að það þurfi meira þá sé þetta bara ekkert, þessar tæplega 240 milljónir sem í þetta eru settar og skipti engu máli. Ég skil alla vega skil þingmanninn þannig að þetta sé svo mikið smotterí að það skipti engu máli. Ég er henni ekki sammála. Ég held að þessir fjármunir skipti máli fyrir þá deild lögreglunnar sem um þessi mál hefur fjallað og unnið með. Ég er alveg sannfærð um að með þeirri vinnu sem þar á eftir að fara fram í tengslum við aðgerðaáætlunina komum við til með að sjá enn frekar hvar styrkingin sé best og hvernig hún þurfi að vera, því að hún er auðvitað ekki bara hjá lögreglunni, hún er víðar í kerfinu eins og hv. þingmaður þekkir mjög vel.