148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[20:06]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég velti fyrir mér einu í sambandi við tekjuskatt því að hv. þingmaður fór aðeins inn á það að hann teldi skattheimtu af fólki með lægri tekjur vera of mikla á Íslandi, sjónarmið sem ég get alveg tekið undir. Það sem ég velti fyrir mér er hvernig hv. þingmaður sæi helst fyrir sér að breytingar á því til bóta yrðu útfærðar. Sér hann fyrir sér lækkun á tekjuskattsprósentu í neðra þrepinu, vænti ég, eða hækkun á persónuafslætti?

Við í Pírötum lögðum til fyrir kosningar lækkun á persónuafslætti. Það fylgir því reyndar talsverður kostnaður fyrir ríkissjóð, eitthvað sem við reiknuðum út. En ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður sjái það fyrir sér að hækka persónuafsláttinn sem leið til að bæta úr þessu?

Hitt sem ég velti fyrir mér er hvort hv. þingmaður hafi skoðun á því að persónuafsláttur sé einhvern veginn þrepaskiptur eða fari eftir tekjum. Ég spyr vegna þess að ég hef heyrt þær hugmyndir af og til að flækja hann, ég skil markmiðið með því, en hins vegar þykir mér líka afskaplega vænt um hvað persónuafslátturinn er í raun og veru einfalt tæki. Það er í raun og veru bara ein tala sem við notum gagnvart tekjuskattsútreikningi til að geta reiknað út hlutina. Alla vega finnst mér það hafa hjálpað mér þegar ég þurfti að reikna út þessa hluti. Ég er alltaf hræddur við að fara að breyta persónuafsláttarkerfinu í sjálfu sér, hvernig afsláttur er reiknaður, þótt ég myndi vissulega taka undir að það ætti að hækka hann. Óska eftir áliti hv. þingmanns á þessu.