148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[20:08]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Ólafur Ísleifsson) (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Það er ákaflega gagnlegt að fara yfir skýrslu Alþýðusambands Íslands varðandi þróun skattbyrðarinnar vegna þess að þar er hækkun á skattbyrði í öllum tekjuflokkum, og mest hjá þeim sem lægstu tekjurnar hafa, rakið til nokkurra þátta og fyrst og fremst er það rakið til þess að persónuafslátturinn hefur ekki fylgt launaþróun sem hefur aukið skattbyrði lægri launa mest. Síðan er það, og ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir athugasemdir hans, að af hálfu míns flokks, Flokks fólksins, tefldum við fram hugmyndum um þrepaskiptan persónuafslátt þannig að hann yrði í nokkrum þrepum og ber að sjálfsögðu að viðurkenna að það er náttúrlega flóknara fyrirkomulag en að hafa bara eina tölu. En við leyfðum okkur að tefla því fram að hann félli kannski bara niður við háar tekjur. Við leyfðum okkur að nefna töluna 1,5 milljónir á mánuði fyrir aðila sem eru í slíkum hópum eða eru í slíkum tekjuhópi, að þá kannski vegur þetta ekki þungt í afkomu þeirra og gætu sem best séð af þessu.

Ég tek undir sjónarmið hv. þingmanns að að sjálfsögðu er það kostur að geta haldið svona kerfum einföldum, en stundum gæti slíkt sjónarmið þurft að víkja fyrir öðrum sem vega þá kannski þyngra, þ.e. að nota þetta kerfi betur til að styðja (Forseti hringir.) við þá sem lakast eru settir.