148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[20:15]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Stórsókn og ný vinnubrögð, þetta eru lykilorðin, slagorð þessarar ríkisstjórnar sem líkjast æ meira hreinni skrumskælingu eftir því sem líður á fjárlagaumræðuna. Það á að troða marvaðann áfram og stórum hópum er boðið að troða áfram og enn um sinn, bara af ögn meiri krafti.

Virðingarleysi fyrir almenningi, fyrir skjólstæðingum og starfsfólki víða í opinberri þjónustu, m.a. í heilbrigðisþjónustu og í löggæslu, er dapurlegt. Leiðarstefið virðist vera: Flýtur á meðan ekki sekkur.

Sýnishorn fengum við fyrr í dag við afgreiðslu hins svokallaða bandorms: Ný vinnubrögð, meira samráð, að virkja minni hlutann. Þetta er ekki að gerast. Það var upp á sömu bókina lært, gömlu lögin leikin og sungin.

Birtingarmyndin er sú að stjórnarflokkunum finnist þetta í lagi í rauninni, það liggi ekkert á að bæta hag þeirra sem verst standa. Þau segja það beinlínis, það þurfi að skoða þetta betur, það sé að mörgu að hyggja bæði til sjávar og sveita. Þeim finnst í lagi að sjá fjölskyldufólk í hundraða tali sækja sér mat til hjálparstofnana fyrir jólin. Í besta falli er hlýlega talað um hið góða starf sem Mæðrastyrksnefnd og aðrar hjálparstofnanir standa fyrir, og vissulega er það gott starf. Að ölmusubiðraðir eigi ekki að sjást í velferðarsamfélagi, það hvarflar ekki að ríkisstjórninni. Þetta er ömurlegt og því mótmælum við jafnaðarmenn í Samfylkingunni harðlega fyrir hönd venjulegs fólks í þessu landi, sem fyrir kosningar trúði orðum þeirra sem nú sitja við stjórnvölinn. Þau bregðast. Þau ganga á bak orða sinna. Þau segja: Þetta kemur bráðum, ekki vera óþolinmóð. Þau lofa áfram. Er það trúverðugt? Vonandi, lengi skal manninn reyna.

Stærsti flokkurinn í þessu stjórnarsamstarfi hefur lengi setið við katlana og mótað íslenskt samfélag fremur öðrum stjórnmálaflokkum og afrekað það m.a. að koma þjóðinni á vonarvöl og gumar nú af því hversu vel og skynsamlega þeir verndi fjöreggið, auðinn. Þeir skynja ekki, og hafa aldrei gert, í hverju auður okkar er fólginn. Auður okkar felst í velferð allra. Það er hin raunverulega uppspretta velmegunar.

Við lifum í velferðarsamfélagi, við trúum því. Við erum ein ríkasta þjóð veraldar mælt á hinn efnislega kvarða Það er haft á orði að við höfum það býsna gott að meðaltali og betra en oftast áður, en misskiptingin vex og vex og við höfum ítrekað bent á það og margar úttektir sýna það. Meint meðaltöl eru vanvirða við mörg þúsund íslensk börn. Er sú mismunun sem við öll horfum upp á eitthvert óumbreytanlegt fyrirbæri, einhverjar verndaðar náttúruminjar sem er ekki hægt að hrófla við? Nei, þetta er pólitík og henni er hægt að breyta. Það viljum við jafnaðarmenn í Samfylkingunni og það verðum við að gera ef friður á að haldast í þessu landi.

Við réttum út sáttarhönd fyrr í dag, málamiðlun, lögðum fyrir ríkisstjórn að leggja lið börnum, barnafjölskyldum, þeim sem eru að búa sér og sínum heimili, þeim sem vilja áfram byggja þetta talsvert harðbýla land en ekki velja sér annan og þekkilegri samastað í síminnkandi heimi, þeim sem vilja fjölga Íslendingum, ungu fólki í barneignahugleiðingum. Og við sjáum árangurinn og undirtektirnar í niðurstöðum meiri hlutans sem gaf minni hlutanum langt nef. Þetta eru nýju vinnubrögðin.

Ríkisstjórnin boðaði stórsókn í uppbyggingu innviða og væntingar voru um að ákall þjóðarinnar um viðsnúning í heilbrigðiskerfinu yrði virt. En sjáum við einhver merki um átak til sóknar? Sjáum við yfir höfuð einhver merki um sóknarhug? Nei, það held ég ekki, því miður. Að óbreyttu blasir við alvarleg staða í heilbrigðisþjónustu á árinu 2018.

Eitt alvarlegasta mein okkar í heilbrigðiskerfinu er stefnuleysi, hvert erum við að fara og hvernig ætlum við að komast þangað? Það vantar vegvísi, leiðarlýsingu og vissulega vantar eldsneyti á tankinn.

Enn er haldið áfram á sömu braut í myrkrinu og lagt af stað út í óvissuna. Fjárveitingar til heilbrigðisstofnana byggjast á tilviljanakenndum stærðum og stofnanir fá ekki rönd við reist, sem telja að í flestu sé horft fram hjá svæðisbundnum breytingum, aukningu verkefna, og ein fjárveiting sem ákvörðuð er hér á hinu háa Alþingi látin duga út heilt ár. Slíkt verklag er ótækt í nútímasamfélagi. Það er einstakt í samfélagi vestrænna þjóða að heilbrigðisstofnanir séu fjármagnaðar með þessum hætti án tillits til verkefna og viðfangsefna.

Það er árvisst að heilbrigðisstofnanir hafi uppi málflutning, stofnunum sínum til varnar í aðdraganda fjárlagagerðar, enda ríkir þar mjög víða erfitt ástand og hefur gert í nokkuð mörg ár, nánast örvænting. Slíkt þjark sem viðgengist hefur í aðdraganda fjárlagagerðar hefur áhrif á alla starfsmenn, bæði þá sem við sögu koma og almenna starfsmenn. Hættan er sú að þetta hafi margvísleg neikvæði áhrif á starfsemi stofnananna, starfsmannabrag og þjónustu.

Það sem sammerkt er öllum heilbrigðisstofnunum á landinu er að reksturinn er vanfjármagnaður, það er þörf á mikilli endurnýjun á búnaði og á viðhaldi stofnana. Þessu er í litlu svarað í nýjum fjárlögum, þó eru þess merki.

Í máli Landspítala kemur fram að aðstæður spítalans hafi verið þannig nú síðustu daga vegna aðvífandi álags og stórslysa að þeir hafi hreinlega ekki haft bolmagn og krafta til þess að sitja fyrir fjárveitingavaldinu og gera þeim grein fyrir alvöru stöðunnar. Niðurstaða fjárlaga sé fyrirsjáanlega sú að fram undan sé að velja úr því sem má skera utan af starfseminni og vísa í burtu. Og hvert á að vísa? Út í bæ á sjálfstætt starfandi stofur þar sem greitt er fyrir hvert viðvik sérstaklega og upp í topp samkvæmt gjaldskrá. Það á ekki við um Landspítala sem nýtur fjár á föstum fjárlögum sem eiga að duga út árið.

Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur ekki vikið einu orði að breyttri fjármögnun spítalans, sem er þó knýjandi nauðsyn. Það virðist ekki vera nein sýn til framtíðar í þeim efnum. Það eru engin merki um það í fjárlagafrumvarpi.

Samanburður á milli stofnana í heilbrigðisþjónustu er erfiður, stundum misvísandi og varhugaverður. Fulltrúar stjórnenda á heilbrigðisstofnunum í landinu tína til margvísleg rök fyrir máli sínu þegar þeir koma og bera upp vanda sinn í rekstri; vaxandi þjónustuþörf, aldurssamsetning, sérstök atvinnustarfsemi, aukinn fjöldi ferðamanna o.fl. Allt eru þetta góðar og gildar skýringar í sjálfu sér en það skortir mikið á hlutlæga, gagnrýnda og samræmda mælikvarða.

Í heilsugæslunni er þetta komið ofurlítið lengra þar sem menn hafa þó þann samanburð sem er íbúafjöldi í viðkomandi heilbrigðisumdæmi og samsetning hans og starfsemin er töluvert fyrirsjáanleg, þessi mikilvæga grunnþjónusta í hverju samfélagi. Á sjúkrasviðinu er þetta hins vegar flóknara. Menn geta ekki borið saman íbúafjöldann á staðnum því að heilbrigðisstofnanirnar hafa svo ólíku hlutverki að gegna og upptökusvæðið er misjafnlega stórt og hlutverk þeirra margvíslegt. Menn verða því að vega og meta með kostnaðargreiningu fjárveitingar til þeirra þegar fram líða stundir. Þetta undirstrikar enn og aftur mikilvægi þess að kostnaðargreining þjónustunnar verði efld. Því miður hefur lítið verið unnið að því máli af hálfu stjórnvalda og þekking utan Landspítala nánast engin á því sviði.

Frú forseti. Það sem upp úr stendur í umræðu síðustu dægrin er þetta: Það er vanræksla gagnvart þeim sem höllustum fæti standa í samfélaginu; aldraðir, barnafjölskyldur, öryrkjar og þeir sem sjúkir eru. Hvar er hugur flokksins sem leiðir ríkisstjórnina? Er algjörlega búið að slökkva baráttueldana? Ómar hvergi söngurinn gamli góði? Þó að framtíð sé falin þá er hún þarna samt rétt handan við hornið. Sú framtíð sem þessi ríkisstjórn boðar gefur ekki fyrirheit um að bárur frelsis brotni á ströndum þeirra sem mest þurfa á því að halda og bíða enn. Að byggja réttlátt þjóðfélag virðist ekki vera á efnisskrá ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur fyrir árið 2018. Hvað með baráttuna? Það er búið að gleyma þeim, með leyfi forseta, sem þekkja skortsins glímutök.