148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[20:33]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlustaði af miklum áhuga á ræðu hv. þm. Guðjóns S. Brjánssonar. Hann tók í raun umræðu sem hefur kannski oftar heyrst frá hlið Pírata að undanförnu en út frá mjög áhugaverðum vinkli. Þetta fékk mig til þess að velta því fyrir mér hvernig hægt væri að vinna þessa hluti öðruvísi og jafnvel öðruvísi en ég sjálfur eða aðrir sem ég hef heyrt í hafa verið að lýsa. Ég þykist vita að hv. þingmaður hafi töluverða reynslu á þessu sviði og því spyr ég hvernig mögulegt væri að bæta skipulag til framtíðar varðandi fjármál heilbrigðisstofnana eins og þau eru í dag til að tryggja reksturinn af skynsemi. Í samhengi við það spyr ég: Hvernig mundi hv. þingmaður vilja sjá uppbygginguna og skipulagið á hugsanlegri langtímaáætlun um heilbrigðismál sem mikið hefur verið rætt um og er væntanleg að mér skilst?

Þegar ég hugsa um þetta hugsa ég alltaf um einingar og kubba sem smella saman á viðeigandi hátt eftir því hvernig stofnun er um að ræða; hvar hún er, hversu mikla þjónustuþörf hún hefur og þess háttar. En ég áttaði mig á því, við að hlusta á ræðu hv. þingmanns, að kannski er þessi kubbanálgun, sem er einhvern veginn föst í hausnum á mér, ekki eina leiðin til að nálgast þetta. Kannski eru til eðlilegri nálganir sem fólk með meiri reynslu úr heilbrigðisgeiranum sér í hendi sér en eru mér algjörlega framandi.