148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[20:35]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er kannski erfitt að svara því í stuttu máli hvernig við vildum sjá stefnuna. Landinu hefur hins vegar verið deilt upp í heilbrigðisumdæmi og stefnan hefur verið sú síðustu 10 til 15 ár að fækka heilbrigðisstofnunum og stækka þær, gera þær burðugri stjórnsýslueiningar og hæfari til að bera meiri ábyrgð á stærri svæðum hvað varðar þjónustu. Þær hafa aldrei fengið að rækja sitt hlutverk sem skyldi. Bæði hafa þær ekki fengið það fjárhagslega svigrúm sem þær þurfa og hvað varðar stóran hluta þjónustunnar, sem er sérfræðiþjónusta, þá hefur það kerfi ekki virkað.

Ég held að svæðin eigi að vera ábyrg og verða sterk, þessi umdæmi. Það sem við þurfum að hafa innifalið í nýrri heilbrigðisstefnu eða heilbrigðisáætlun, leiðarvísi eða hvað við köllum það, er að við komum okkur saman um hvar eigi að vera þjónusta og að sú þjónusta verði þá fullfjármögnuð. Hún er það ekki í dag.

Þetta er í örstuttu máli það sem mér dettur í hug varðandi skipulagið. En mikil áskorun er fólgin í því að skapa nýja heilbrigðisstefnu sem gildi fyrir allt landið, því það eru mjög sterkar skoðanir á því hvar og hvernig eigi að veita heilbrigðisþjónustu. Allir vilja hafa heilbrigðisþjónustuna sem næst sér. Við eigum að reyna að leysa úr því eins vel og við getum, en það verður sjálfsagt seint hægt þannig að öllum líki, en við eigum að reka áróður fyrir miklum gæðum.