148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[20:37]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þetta ágæta svar. Þetta leiðir mig til þess að velta fyrir mér afstöðu þingmanns til stofnanasamninga á borð við þann sem í gildi var við Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Höfn í Hornafirði, starfseininguna þar, en hún var á tímabili rekin sem samningur við sveitarfélagið þar. Ég spyr hvort sú hugmynd hafi gefið góða raun sem einhvers konar annað stjórnsýslustig? Það er alltaf þessi togstreita. Þegar verið er að búa til stærri og samheldnari einingar verður vissulega meiri samfella í rekstrarskilyrðum og skipulagi, en það bitnar svolítið á einstökum eiginleikum hvers staðar fyrir sig. Það eru margir staðir þar sem þjónustan er mjög takmörkuð og mjög lítil, en gæti fengið að njóta sín og blómstra á einhvern hátt ef skilyrðin væru rétt og kannski slíkt annað skipulagsstig gæti hjálpað. Hver er afstaða þingmannsins til þess?