148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[20:44]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góð svör. Mig langar til þess að ganga aðeins nær honum í því og kalla eftir þekkingu hans á málaflokknum. Hv. þingmaður talar um að gæði séu e.t.v. mikilvægari en mönnun, þ.e. það að vera með hausa á staðnum, eins og hann segir. Það er mikilvægt að byggja á gæðum. Þá vil ég spyrja: Erum við með nægilega góða mælikvarða á það að meta gæði heilbrigðisþjónustunnar? Þá er ég fyrst og fremst að tala um þjónustu heilbrigðisstofnananna úti um land, hvaða mælikvarðar eru til. Eru þeir nógu góðir? Þurfum við að endurskoða þá? Rætt var um það í McKinsey-skýrslunni að við þyrftum að fjölga mælikvörðum. Hvaða skoðun hefur hv. þingmaður á því?

Svo er annað sem er mér ofarlega í huga, það er þjónusta við fæðandi konur, sem er orðin mjög (Forseti hringir.) takmörkuð úti um land, og eiginlega bara einskorðuð við höfuðborgarsvæðið og Eyjafjarðarsvæðið. Hvernig eigum við að koma til móts við það? Ég hef það á tilfinningunni að við höfum ekki brugðist við þeirri stöðu sem upp (Forseti hringir.) er komin með því að fækka stöðum fyrir konur til þess að fæða börn.