148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[20:46]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þessar fyrirspurnir, sem eru báðar tvær fínar, en tíminn er stuttur.

Við höfum auðvitað lykilmælikvarða til þess að mæla árangur á vissum sviðum. En varðandi gæðamælikvarða, hversu góða þjónustu við veitum, er pottur brotinn. Raunar má segja að það komi á óvart hversu lélega mælikvarða við höfum í þessari mikilvægu, viðkvæmu þjónustu. Þar er verk að vinna. Við höfum ekki viðskiptamannaskrá eða gæðakannanir í þjónustunni nema mjög óreglulega.

Varðandi fæðingarþjónustuna er það snúið. Það eru auðvitað staðir úti á landi þar sem eru kannski 30, 40, 50 fæðingar. Það er ekki raunhæft eða það kostar a.m.k. mjög mikið að halda úti viðbúnaði til þess að tryggja öryggi í fæðingum. Það sem gerst hefur er að þessi þjónusta hefur verið tekin í burtu eða hefur horfið (Forseti hringir.) og það hefur ekkert komið í staðinn. Fjölskyldur — (Forseti hringir.) fæðandi konur fá engan eða lítinn stuðning þegar þær þurfa að taka sig upp og fara að heiman. Það er auðvitað maki og hugsanlega barn (Forseti hringir.) líka sem vilja taka þátt í þessum merkilega viðburði. (Forseti hringir.) Þetta er stórmál fyrir fjölskyldu úti á landi. Þar þyrftum við að móta okkur stefnu.