148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[20:47]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Klukkan er orðin svolítið margt miðað við föstudagsfund, en hvað hefur maður svo sem annað að gera en að ræða fjárlög? Ég ætla að fara yfir nokkra þætti sem hafa reyndar margir komið fram í umræðunni, bæði núna og við 2. umr., og fer líka yfir efni sem varðar bandorminn svokallaða, þ.e. ýmsar breytingar vegna fjárlaga, þar sem þau mál eru auðvitað náskyld. En fyrst langar mig að nefna eitt sem er afskaplega mikilvægt að sé útkljáð í þessari umræðu sem varðar breytingu á bandorminum.

Það atvikaðist þannig að í efnahags- og viðskiptanefnd, þegar hún var að fjalla um bandorminn, kom til tals framlenging á bráðabirgðaákvæði. Þetta bráðabirgðaákvæði veitir framhaldsskólum heimild til að rukka fyrir efniskostnað. Sitt sýnist hverjum um hvort eðlilegt sé að framhaldsskólar rukki þetta eða ríkissjóður borgi þetta, en þannig var það nú samt. Samkvæmt lögunum og meginefni þeirra var gert ráð fyrir að ekki þyrfti þessa heimild, að ríkissjóður myndi borga þetta. Síðan varð hrun 2008. Í kjölfarið kom árið 2009. Þá ákvað Alþingi, vegna ástandsins sem þá var uppi í efnahagsmálum, að setja inn þetta bráðabirgðaákvæði sem myndi vissulega létta örlítið á ríkissjóði en á móti leggja byrðarnar á námsmenn sem þurftu þá að kaupa efnið af skólanum og borga meira fyrir menntun sína. Þetta var gert tímabundið. Það er alveg skýrt að vilji löggjafans var sá á þeim tíma að þetta bráðabirgðaákvæði væri ill nauðsyn. Núna er það ekki lengur nauðsyn, bara illt.

Þetta var aðeins rætt í efnahags- og viðskiptanefnd. Það fór þannig um stundarsakir að meiri hlutinn vildi samt hafa þetta bráðabirgðaákvæði inni, minni hlutinn var á móti því og vildi bara að ríkissjóður borgaði þetta. Þá kom upp sú umræða hvort fólki fyndist þetta eðlilegt eða ekki. Það er alveg góð og gild umræða en þá ætti líka að breyta meginefni laganna sjálfra þannig að þetta væri bara skýrt og þyrfti ekki alltaf að vera að framlengja eitthvert bráðabirgðaákvæði. Ef fólk vill hafa þetta þannig að þessi heimild sé til staðar á auðvitað að setja það inn í meginefni laganna og hætta að sóa tíma okkar með stanslausum bráðabirgðaákvæðum sem þarf síðan að velta upp á hverju ári. Ég gæti haldið sjálfstæða ræðu um bráðabirgðaákvæði og hversu fyrirferðarmikil þau eru í meðferð þingsins á þessum málum — ég nefni það sem dæmi að lög um tekjuskatt eru alger frumskógur, það eru 57 bráðabirgðaákvæði þar, þó nokkrir doðrantar þær línur — en það er bara í framhjáhlaupi sem ég nefni það.

Hvað sem því líður stungum við upp á því í minni hlutanum að þetta bráðabirgðaákvæði yrði bara ekki framlengt, að ríkissjóður myndi einfaldlega borga þetta. Tillagan um að framlengja þetta bráðabirgðaákvæði var dregin til baka af meiri hlutanum, sællar minningar. Það var jákvætt, mjög jákvætt, og er vonandi liður í að fella tilgátu mína um að ríkisstjórnarflokkarnir greiði alltaf atkvæði gegn minni hlutanum. Nú sé ég fram á að sú tilgáta, sem ég vona að sé röng, sé röng, það væri mjög gaman.

Ástæða þess að ég nefni þetta er sú að ef þessi bráðabirgðaheimild til gjaldtöku er einfaldlega numin brott stendur eftir að nemendur í iðnnámi, sem þurfa þetta efni til að stunda sitt nám, þurfa samt sem áður að fá þetta efni. Einhvers staðar frá verður þetta að koma. Ef það er ekki fjármagnað og heimildin er ekki framlengd kemur það niður á getu framhaldsskólanna til að bjóða upp á þessa iðnmenntun. Það má ekki gerast. Að mínu mati er verra að taka burt bráðabirgðaákvæðið, þ.e. framlengja það ekki, án þess að fjármagna þá efniskostnaðinn en að framlengja bráðabirgðaákvæðið.

Minni hlutinn vildi þá sleppa því að framlengja þetta bráðabirgðaákvæði og er það vel. En þá þurfum við líka að fjármagna þetta. Og það gerist í þessu máli, í fjárlögum. Við spurðum að því í efnahags- og viðskiptanefnd, hvað það kostaði. Svörin voru algerlega skýr, ég hef sjaldan heyrt jafn skýr svör í nokkurri nefnd. Það voru 300 milljónir. Ég spurði aftur: Er það þá nóg, er það verðmiðinn sem þarf til að laga þetta varanlega? Ég man ekki betur en að mann hafi kinkað kolli og sagt já. Svarið var alla vega á þá leið að þannig lifir minningin — þótt minnið sé brigðult og allt það.

Nú liggur fyrir breytingartillaga frá minni hlutanum um að auka þetta fjármagn um 300 milljónir til þess að ná þessu markmiði, að geta sleppt þessu bráðabirgðaákvæði án þess að það komi niður á getu skólanna til að bjóða upp á þetta iðnnám. Núna liggur á að meiri hlutinn geti greitt atkvæði með tillögu minni hlutans. Sú tillaga, að auka þessi útgjöld um 300 milljónir, er óhjákvæmileg afleiðing þess að draga til baka tillögu meiri hlutans um að framlengja bráðabirgðaákvæðið. Þetta er órjúfanlegt. Ef meiri hlutinn hyggst einungis taka burt bráðabirgðaákvæðið án þess að leggja til féð er verið að draga úr getu framhaldsskólanna til að bjóða upp á iðnnám.

Ég trúi því ekki að það hafi verið markmiðið eða tilgangurinn með því að draga þetta til baka. Enda veit ég ekki hvers vegna í ósköpunum meiri hlutinn ætti að vilja gera það ef út í það er farið. En það þýðir líka að kannski fellur tilgáta mín í atkvæðagreiðslum á eftir og meiri hlutinn getur þá greitt atkvæði með þessari tillögu. Ég vona að meiri hlutinn upplifi sóma í því en ekki skömm. Það á ekki að vera einhver uppgjöf, það á að vera þvert á móti, það væri glæsilegt að sjá meiri hluta greiða atkvæði með tillögu minni hluta um fjárlög. Þó að það væri ekki nema bara til að hafa upplifað það.

Ég held ég láti þetta duga um þennan tiltekna lið.

Það gerðist á dögunum að forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, gerði það sem Donald Trump gerir oft, sem er að hann hótaði. Hann vildi fá atkvæðagreiðslu hjá Sameinuðu þjóðunum um hvort Bandaríkin skyldu viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels. Eldfimt mál og vitaskuld viðkvæmt. Reyndar svo viðkvæmt að það stefnir friðarumleitunum í hættu. Þetta er mjög alvarlegt mál. Það er í sjálfu sér ekki endilega bara vegna þess hvort Jerúsalem sé höfuðborg Ísraels eða ekki heldur áhrifin á friðarviðræðurnar sjálfar. Þetta er eitt af höfuðágreiningsefnunum í þeim viðræðum og þetta stefnir í hættu áratugaerfiði við að reyna að koma á friði í Ísrael og Palestínu.

Nú þar sem Donald Trump er Donald Trump gerir hann það sem Donald Trump gerir, hann hótar þjóðum að hann muni hætta að fjármagna þróunaraðstoð til þeirra landa sem ætla að greiða atkvæði gegn honum. Fyrir utan það hvað þetta er hneykslanleg og barnaleg hegðun — flestir unglingar sem ég þekki haga sér ekki svona því að þeir eru vaxnir upp úr því, þetta er fáránleg hegðun. Og meðan ég man: Við eigum bara að segja það upphátt, maðurinn hagar sér eins og barn, með fullri virðingu fyrir börnum. En þetta gerði alla vega að verkum að hann dró úr fjárveitingum til Sameinuðu þjóðanna. Sameinuðu þjóðirnar eru ekkert endilega vinsælasta alþjóðastofnun í heiminum og ég skil það alveg. Þær hafa á margan hátt sömu galla og Alþingi. Þetta er sá vettvangur þar sem fólk kemur saman til að ræða ágreiningsmál. Það getur alveg verið svolítið ljótt, getur vissulega verið óþægilegt. En það er mikilvægur vettvangur. Einn mikilvægasti vettvangur sem við höfum eru Sameinuðu þjóðirnar með öllum göllum. Þá vil ég samt ekki draga úr öllu því sem Sameinuðu þjóðirnar hafa gert gott, það virðist því miður oft gleymast.

Hvað sem því líður dregur hann úr þessari fjármögnun. Nú eru það ekki mínir útreikningar sem ég styðst við, en það eru nokkrar leiðir til að reikna út hvað væri þá sanngjarnt að við myndum leggja til aukalega í Sameinuðu þjóðirnar ef við vildum sýna fordæmi, Ísland, og gera hið þveröfuga við það sem Donald Trump gerir. Ef við reyndum að finna út úr því hvað væri réttlátt og skynsamlegt af okkur að leggja af mörkum í staðinn til að sýna samstöðu með þessari mikilvægu alþjóðastofnun. Þess vegna erum við með breytingartillögu upp á aðeins 100 millj. kr., ekki meira en það. Ekki mikil upphæð. Þetta er sem sé tala sem er reiknuð út frá meðaltali eða miðgildi eða einhverju slíku af þremur mismunandi leiðum sem hægt væri að nota til að reikna út hvað væri sanngjarnt fyrir Ísland. Það er hægt að miða við fólksfjölda og tvær aðrar leiðir. Ég reiknaði þetta ekki sjálfur þannig að ég þekki ekki nákvæmlega forsendurnar að baki en alla vega er þetta mjög lág upphæð, 100 milljónir, og þá gætum við sent þessi skýru skilaboð.

Þetta er nú frekar nýleg tillaga. Ég veit ekki til þess að hún hafi verið rædd í umræðum um fjárlög hingað til. Þetta er tvímælalaust eitthvað sem við ættum að gera til þess að sýna að þótt sum öfl í þessum heimi vilji helst loka að sér og alla aðra úti sé Ísland ekki þar á meðal. Það væru mikilvæg og góð skilaboð og svolítil tilbreyting miðað við fréttir þessara daga.

Ég hef því miður ekki þann tíma sem ég hefði þurft til að fara yfir öll hin atriðin sem mig langaði að fara yfir. En ég ætla að velja eitthvað úr.

Ég hugsa að ég nefni aðeins eitt sem mér hefur fundist alveg kostulegt, eftir að vera aftur kominn á þing eftir kosningabaráttu sem einkenndist, eins og kosningabarátta almennt, af svokölluðum kosningaloforðum. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég er á móti kosningaloforðum. Mér finnst ekki að flokkar eigi að gefa þau, mér finnst ekki að fólk eigi að trúa þeim. Mér finnst kosningaloforð sem fyrirbæri bara ekki við hæfi. Mér finnst þau óábyrg.

Við reyndum að koma því mjög skýrt til skila í okkar kosningabaráttu að þetta væru tillögur, gætu breyst. Þær væru háðar ákveðnum forsendum, þær forsendur gætu breyst og myndu hugsanlega gera það. Því að þannig virkar raunveruleikinn. Það er ekki þannig að pólitíkusar ákveði í kosningabaráttu að þetta sé bara það sem eigi að gera alveg sama hvað. Það er bara óábyrgt. En auðvitað verður fólk að vita hvað stjórnmálamenn hafa í hyggju að gera. Þess vegna eru þeir með stefnu. Þess vegna reyna þeir að útskýra út frá hvaða forsendum þeir taka ákvarðanir sínar og reyna eftir fremsta megni að treysta okkur hér á hinu háa Alþingi til að taka tiltölulega upplýstar og skynsamlegar ákvarðanir.

Umfram það vil ég samt nefna að auðvitað á almenningur, ef hann vill beinlínis stjórna því hvernig hlutirnir eru gerðir og hvað er gert, einfaldlega að fá þann rétt. Gott fyrsta skref, meðan ég man, væri að innleiða nýja stjórnarskrá grundvallaða á frumvarpi Stjórnlagaráðs þar sem almenningur getur kallað til sín frumvörp í þjóðaratkvæðagreiðslu ef 10% kjósenda krefjast þess, sem ég tel mjög hógværa tillögu. Það er líka alveg hægt, þegar sátt væri komin um slíkt, að gefa almenningi meira færi á að stjórna hlutum, jafnvel því hvernig fjármagni sé beint og hvert. Þá þyrfti kannski minna að stóla á að hv. þingmenn og stjórnmálamenn og frambjóðendur uppfylli einhver „loforð“. Ef almenningur vill ráða á almenningur að fá að ráða beint, sjálfur. Hann á ekki að þurfa að treysta því að einhver lofi og standi við loforð, sem, meðan ég man, almenningur er almennt vanur því að allir stjórnmálamenn brjóti. Ég spyr stundum: Hvað er átt við með þessari fullyrðingu: Allir stjórnmálaflokkar brjóta alltaf öll kosningaloforðin sem þeir gefa? Það er merkilega margt fólk sem er sammála þessu. Einn og einn aðili hefur sínar efasemdir, getur bent á eitt og eitt sem Framsókn því miður einhvern tíma efndi. En í meginatriðum er það stemmningin í samfélaginu að stjórnmálamenn svíki alltaf kosningaloforðin sín. Það hlýtur að vera ástæða fyrir því. Ég held að það sé bara ágæt ástæða fyrir því, það er vegna þess að það er oft mjög óábyrgt hvernig þeir tala í kosningabaráttu.

Eitt af því sem mér fannst svo óábyrgt í kosningabaráttunni fyrir þessar kosningar að mér blöskraði var þegar Sjálfstæðisflokkurinn fór að tala um 100 milljarða í innviðauppbyggingu. Ef maður fór að spyrjast nánar fyrir um það kom það náttúrlega ekki fram í fjárlögum, þá var þetta skyndilega einhver hagnaður einhvers staðar sem ég hafði ekki heyrt um á þeim tíma að væri aðgengilegur stjórnmálamönnum. Það kemur oft upp í kosningabaráttu að allt í einu eru komnir einhverjir tugir milljarða einhvers staðar í einhverri kistu sem enginn vissi af fyrr en efnt var til kosninga. Og svo skildist mér reyndar líka að þarna væri verið að tala um fjögur ár, sem sé heilt kjörtímabil. 100 milljarða yfir heilt kjörtímabil. Það þýðir 25 á ári sem eru önnur skilaboð en einfaldlega 100 milljarðar í innviði. Svona tölur og svona fullyrðingar segja okkur ekki neitt ef það er ekki nákvæmt hvað verið er að tala um. Það er þess vegna sem við í Pírötum gáfum út töflureiknisskjal með tillögum okkar og hugmyndum þannig að fólk gæti skoðað það, sem fólk og gerði. (Forseti hringir.)

Mikið gæti ég nú gortað meira af því en ég ætla að láta forseta ráða að þessu sinni og lýk ræðu minni hér. [Hlátur í þingsal.]