148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[21:03]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna.

Mig langar til að spyrja hann út í ráðstafanir sem fallið var frá hér fyrr í dag, þ.e. bráðabirgðaákvæði sem sett var í kjölfar efnahagshrunsins þar sem frestað var gildistöku 45. gr. og 50. gr., minnir mig, framhaldsskólalaga frá árinu 2008 um efnisgjöld, sem starfsmenntanemendur og iðnmenntanemendur áttu að greiða, og eins um námsgjöld, sem þeir sem stunda kvöldskóla og fjarnám eru rukkaðir um. Sem sagt bráðabirgðaákvæði um að þær greinar í framhaldsskólalögum tækju ekki gildi var sett árið 2009 þegar við vorum á barmi gjaldþrots, og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ætlaði að framlengja núna í blússandi góðærinu á toppi hagsveiflunnar en sá svo að sér og hætti við og við vorum voða ánægð og glöð með það í dag. En síðan kemur í ljós að það vantar fjármögnun á móti, 300 millj. kr. Það má vera að hv. þingmaður hafi komið vel inn á þetta í ræðu sinni, ég þurfti að bregða mér frá. En ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann skilji það ekki eins og ég að tryggja verði framhaldsskólunum 300 millj. kr. í rekstrarfé, ef sú ákvörðun sem tekin var hér í dag um að samþykkja ekki bráðabirgðaákvæðið á ekki að verða til þess að þeir þurfi að skera niður í rekstri um þessar 300 millj. kr.