148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[21:05]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom fram á fundi efnahags- og viðskiptanefndar áður en við komum til þeirrar umræðu og þeirrar atkvæðagreiðslu sem við vorum í fyrr í dag um hvort framlengja ætti þetta ákvæði eða ekki. Talan hefur legið fyrir alla tíð frá því við byrjuðum að tala um þetta hér í þingsal, þ.e. 300 milljónir. Maður talar nú svolítið oft um ekki mjög háar upphæðir hérna, en ég veit að þær safnast saman smátt og smátt. En þetta eru 300 milljónir sem ríkissjóður hefur vissulega efni á. Með hliðsjón af því að bráðabirgðaákvæðið var hugsað út frá kreppuástandi og því að við erum einfaldlega ekki í kreppuástandi nú þá liggur beint við að það þarf þessa aukafjárveitingu til að gera þetta.

Ef breytingartillaga minni hlutans, um að fjármagna þessa annars góðu ákvörðun meiri hlutans um að framlengja þetta ekki, verður felld get ég ekki séð þetta öðruvísi en að Vinstrihreyfingin – grænt framboð hafi svolítið látið fara með sig. Vegna þess að það getur ekki verið vilji þeirra að draga úr getu framhaldsskólanna til að bjóða upp á þetta nám. Ég trúi ekki að það sé vilji til þess. Það hlýtur að vera einhver mjög alvarlegur misskilningur ef á ekki að fjármagna þetta.

Síðan er tvennt, hvort þeir flokkar vilji fjármagna þetta með því að setja þetta í aukafjárlög næsta ár, og vísa ég þá til langrar og ágætrar umræðu hérna áðan um fjáraukalög þar sem við fórum yfir hversu forkastanleg vinnubrögð það væru. Við vitum að það þarf þessa peninga og þá eiga þeir heima á fjárlögum. Samkvæmt lögum um opinber fjármál er það þannig. Ef við ætlum ekki að brjóta þessi lög vísvitandi verðum við að setja þetta í fjárlagafrumvarpið. Það gefur augaleið.

Og svo hitt, sem ég velti fyrir mér, er hvort það sé einhver egó-spurning að þessar 300 milljónir séu í breytingartillögu minni hlutans eða meiri hlutans. Ég velti því fyrir mér. Ég vona að egóið sé nógu sterkt til að meiri hlutinn geti hugsað sér að greiða atkvæði með tillögu minni hlutans.