148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[21:07]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé eina leiðin, að samþykkja annaðhvort tillögu minni hlutans um 300 milljónirnar inn á málasvið framhaldsskóla eða þá að meiri hlutinn sjálfur komi með nýja tillögu, öðruvísi, upp á 300 milljónir og eina krónu, ef þeir vilja frekar samþykkja tillögu sem þeir leggja fram sjálfir. En ég held að það sé nauðsynlegt.

Ég hef samt áhyggjur af því að menn séu eitthvað að föndra og vilji fara á svig við lög um opinber fjármál. Sérstaklega hef ég miklar áhyggjur eftir að hafa farið í andsvar við hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur þegar hún sagði í andsvari fyrr í kvöld að þetta kæmi allt í ljós þegar hæstv. menntamálaráðherra útskýrði vandlega fyrir okkur að það ætti að nota varasjóðinn til að fjármagna þetta. En varasjóður er bara fyrir það sem er tímabundið og algerlega ófyrirséð. Varasjóður er ekki til þess að dekka einhverja ákvörðun sem er tekin í fljótfærni af meiri hlutanum í þingsal. Ég átti ekki von á því þegar formaður efnahags- og viðskiptanefndar kom hér í pontu og sagði að stjórnarmeirihlutinn hefði hætt við þessa tillögu, að menn væru ekki búnir að skoða og fara yfir hvað það þýddi. Ekki datt mér í hug í dag þegar ég gladdist sannarlega yfir þeirri tillögu að meiningin væri að skera niður í framhaldsskólunum á móti eða ganga á svig við lög um opinber fjármál með einhverjum (Forseti hringir.) brögðum.