148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[21:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún byrjaði á að tala um jöfnuð og mikilvægi jafnaðarins. Hv. þingmaður talaði um jöfnuð í byrjun og eru menntamálin sennilega, alla vega að mínu mati, eitt af mikilvægustu jöfnunartækjunum. Ég er jafnaðarmaður sjálfur, frjálslyndur jafnaðarmaður og undirstrika frjálslyndi þar. Mér þykir þetta eitt mikilvægasta tækið til þess að ná fram jöfnuði. Ég er reyndar á þeirri skoðun, ef út í það er farið, að jöfnuður sé ekki bara spurning um að skipta réttlátt. Það er það líka, en fyrir mér snýst þetta aðallega um valdajafnvægi og valdaójafnvægi, vegna þess að ef það er of mikill ójöfnuður þá verður til furðulegt samspil peninga við frelsi og vald þannig að einhver verður ofboðslega valdamikill og annar ofboðslega valdalítill og frelsislítill og getur þá ekki raungert drauma sína um framtíðina.

Þar mundi ég halda að menntun væri það fyrsta sem við ættum að ræða í sambandi við það að valdefla fólk sem ekki hefur mikið frelsi í lífi sínu. Ég velti fyrir mér, burt séð frá því tiltekna máli sem við ræðum hérna, þeim 300 milljónum sem þarf augljóslega að bæta við, hvort menntun sé ekki eitthvað sem flokkur eins og Vinstrihreyfingin – grænt framboð mundi berjast fyrir og verja fram í rauðan dauðann frekar en að hætta á það með einhverju svona — ég veit ekki hvað ég á kalla það sem hér hefur verið stungið upp á, að nota varasjóðinn. (Forseti hringir.) Er það ekki mikið úr karakter fyrir flokk sem kennir sig til vinstri, sem kennir sig við jöfnuð?