148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[21:31]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fólk sem þekkti mig í skóla mundi ekki búast við því að ég stæði hér í pontu Alþingis og predikaði um mikilvægi menntunar. [Hlátur í þingsal.] En ég tel hins vegar að menntun sé ekkert minna en mikilvægasta og sanngjarnasta jöfnunartækið út frá þeirri hugmynd sem svokallaðir hægri menn vilja helst fara út í, þ.e. þeir sem trúa á jöfnuð sem snýst um jöfn tækifæri fyrst og fremst. Ég er ekki alveg á sama máli. Ég vil ganga lengra en það. Jöfn tækifæri ein og sér tryggja ekki nægilega mikinn jöfnuð að mínu mati, en ef við lítum á jöfnuð sem byggir á jöfnum tækifærum þá er menntunin algjörlega lykilatriði þar, í fyrsta lagi. Í öðru lagi velti ég fyrir mér hversu langt eigum við að ganga, vegna þess að ég hef stundum kallað mig menntakomma, ég kæri mig ekki um að kenna mig að öðru leyti við þá annars hörmulegu hugmyndafræði, þ.e. ég trúi því að fólk eigi að hafa aðgang að menntun. Ég trúi því að hún eigi að vera ókeypis eða svo gott sem, eins nálægt því og við komumst.

Ég er þeirrar trúar, alla vega þangað til einhver kemur með rök gegn því, að við munum mjög seint offjármagna menntakerfið. Mér hefur alltaf fundist vanta peninga í menntamál óháð því tiltekna máli sem við ræðum hér vegna þess að það er undirstaðan undir því að allir geti haft jöfn tækifæri, alla vega jafnari tækifæri, kannski aldrei alveg jöfn tækifæri því að aðstæður fólks eru misjafnar. En ég lít á þetta sem mikilvægasta málið.

Þess vegna finnst mér svo mikilvægt að við komum í veg fyrir að sú ákvörðun sem tekin var hér fyrr í dag um að framlengja ekki þetta bráðabirgðaákvæði, verði eitthvert klúður fyrir þetta mikilvæga jöfnunartæki. Ef það verður síðan afleiðingin af svona „úps-klúðri“, (Forseti hringir.) þegar við þekkjum upphæðina og höfum átt þessar samræður hérna í þingsal, verður mjög erfitt að gleyma (Forseti hringir.) því eða fyrirgefa það seinna meir, held ég.