148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[21:33]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ekki ætla ég að keppa við hv. þingmann um að vera meiri kommi í menntamálum en hann. En ég er algjörlega sammála hv. þingmanni þegar kemur að menntamálum. Ég hef hins vegar áhyggjur af framhaldsskólunum. Þegar hrunið skall á var ég að vinna í framhaldsskóla. Við höfðum hagrætt mjög mikið í framhaldsskólakerfinu fram að þeim tíma þegar hrunið skall á. Og við skólastjórnendur í framhaldsskólunum tókum þátt í hagræðingunni og náðum góðum árangri, sem varð til þess að þegar hrunið skall á var enga fitu að skera. En hins vegar var þjónustuþörfin enn meiri vegna þess að ungum atvinnuleitendum fjölgaði og auðvitað var það rétt ákvörðun hjá vinstri stjórninni að opna framhaldsskólana fyrir þeim.

En það varð til þess að framhaldsskólarnir spöruðu í húsgögnum, tækjum, viðhaldi, öllu sem þeir gátu sparað í sem ekki var þjónusta við nemendur. En nú er komið að skuldadögunum. Núna er það bara stórkostleg blóðtaka fyrir framhaldsskóla að kaupa stóla og borð í tvær stofur án þess að þurfa að skera niður námsframboð á móti. Við þurfum að huga sérstaklega að framhaldsskólakerfinu hvað þetta varðar. Við megum alls ekki ganga út úr þessu húsi og ganga frá fjárlögum fyrir árið 2018 með það hangandi yfir framhaldsskólunum að þeir þurfi að skera niður um 300 milljónir út af þeirri ákvörðun sem tekin var í dag. Við verðum að sameinast um að ganga frá þessu máli með almennilegum hætti. Ekki með einhverri skítareddingu heldur alvörutillögu sem við samþykkjum og (Forseti hringir.) tryggjum að þetta slys sem virðist vera yfirvofandi verði ekki.