148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[21:35]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þær útskýringar sem áttu sér stað í ræðu hennar varðandi heimildir til að nýta varasjóði. Nú er það svo að sú sem hér stendur hefur setið á þingi í um tvær vikur og hefur því sáralitla þingreynslu öfugt við hv. þingmann sem fræddi okkur um þetta með varasjóðina og reyndar öfugt við þann þingmann Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs sem situr í fjárlaganefnd, sem vísaði til þess að nýta mætti varasjóð til að fjármagna þær 300 milljónir sem vantar í framhaldsskólana eftir að ákveðið var að falla frá því að rukka iðn- og starfsnema sérstaklega fyrir efniskostnað þeirra og þannig mismuna nemum freklega.

Erindi mitt í pontu í kvöld er að spyrja hv. þingmann hvort það sé rétt skilið að ekki megi nýta þessa varasjóði, að ekki megi á þeim tímapunkti þegar fjárlög eru rædd ákveða að fjármagna eitthvað í framtíðinni, á næsta ári, með þá varasjóðum sem eru skilgreindir í lögum um opinber fjármál. Það væri gott ef hægt væri að fræða nýgræðinginn um þetta.