148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[21:37]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í lögum um opinber fjármál er fjallað um almennan varasjóð sem á að vera 1% af fjárheimildum fjárlaga. Það er líka fjallað um varasjóði málaflokka og málasviða, en það er safnað í þá. Það er enginn varasjóður til í málasviðinu framhaldsskólar. Það þyrfti þá að fara í almennan varasjóð. Um almennan varasjóð er fjallað í 24. gr. laga um opinber fjármál. Ég vil lesa það sem þar stendur, með leyfi forseta:

„Í frumvarpi til fjárlaga skal gera ráð fyrir óskiptum almennum varasjóði til að bregðast við útgjöldum sem eru tímabundin, ófyrirsjáanleg, óhjákvæmileg og ekki er unnt að bregðast við með öðrum hætti samkvæmt lögum þessum.“

Síðan stendur að varasjóðurinn skuli nema að lágmarki 1% af fjárheimildum fjárlaga.

Það er alveg augljóst af lagatextanum að ekki er hægt að ákveða áður en búið er að ganga frá fjárlögum að gera eitthvað sem meiri hlutinn ákvað og taka peningana úr hinum almenna varasjóði. Það gengur augljóslega ekki og stendur skýrt í 24. gr. laga um opinber fjármál. Og ekki er hægt að fara í varasjóðinn fyrir málaflokkinn því að það er ekki króna þar. Sú leið er því ekki fær. Annaðhvort verðum við að samþykkja tillögu Pírata sem liggur fyrir um 300 millj. kr. aukagreiðslur í rekstur framhaldsskólanna eða að stjórnarmeirihlutinn kemur með svipaða tillögu. Þetta verður að fara þá leið.