148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[21:39]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þá er kannski rétt að spyrja hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur hvort það sé réttur skilningur að ekki sé hægt að segja að þetta séu óvænt eða ófyrirséð útgjöld þar sem verið er að taka ákvörðun um það hér í kvöld og því harla lítið óvænt og ófyrirséð varðandi þau útgjöld á þessum tímapunkti, eitthvað sem við getum ekki velt yfir í framtíðina.

Ef ég skil þetta rétt er engin heimild fyrir því í lögum og hefði kannski verið betra ef hv. þingmaður Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir hefði vitað að engin heimild væri í lögum til að nýta varasjóð, sérstaklega ef varasjóðurinn er ekki til fyrir málaflokkinn framhaldsskóla, en þá almennan varasjóð í aðgerðir sem ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn tekur ákvörðun um og stjórnarmeirihlutinn í þingsal á meðan á fjárlagavinnunni stendur eða áður en fjárlög eru samþykkt.

Ef ég skil þetta rétt erum við í þeirri stöðu að stjórnarmeirihlutinn verður að samþykkja tillögu Pírata um 300 milljónir eða koma með sjálfstæða tillögu, ef stjórnarmeirihlutinn getur ekki undir nokkrum einustu kringumstæðum sýnt samstöðu með framhaldsskólunum og samstöðu með minni hlutanum á þingi og samþykkt einfaldlega þá lausn sem liggur fyrir. Það þarf ekki einu sinni að fara í neina vinnu, tillagan liggur fyrir. Er þetta ekki rétt skilið hjá þeirri sem hér stendur?