148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[21:44]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég brá mér aðeins fram fyrir í röðina vegna fjarveru hv. þm. Loga Einarssonar, sem er síðan kominn í sal í millitíðinni. En ég ætla ekki að hafa þetta mjög langt að þessu sinni. Það er í rauninni tvennt sem ég vil koma inn á. Í fyrra atriðinu hegg ég í sama knérunn og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir gerði hér á undan mér varðandi framhaldsskólana og þær 300 milljónir sem vantar til þess að tryggja framgang þeirra eftir þær breytingar sem gerðar voru fyrr í dag.

Það sem málið snýst um er efniskostnaður. Mér skilst að það snúist í raun ekki um innritunargjöld, sem betur fer, það er aðeins minna og kannski er svigrúm til þess að fara aðeins neðar í þessari kröfu. Ég ætla ekki að segja nákvæmlega hversu langt, en ljóst er að ekki er hægt, og það er ekki bjóðandi að skilja eftir framhaldsskólakerfið með 300 millj. kr. holu, eða hver svo sem upphæðin er, núna strax við upphaf nýs fjárlagaárs. Við vitum af því að sú breyting sem gerð var hér fyrr í dag mun skila okkur holu af einhverri stærðargráðu. Það er hreinlega spurning um að vinna vinnuna okkar sómasamlega, að passa upp á að þetta sé vel gert.

Í því samhengi læðast að mér tvær spurningar; annars vegar hvort lög um opinber fjármál eins og þau eru gerð — nú erum við smám saman að safna okkur reynslu af því hvernig þau virka — séu kannski aðeins of stíf hvað sumt af þessari gerð varðar. Hugsanlega er fyrirkomulagið varðandi varasjóðina, hvort sem um er að ræða varasjóði málefnasviða eða almenna varasjóði, aðeins of þröngt sniðið til þess að hægt sé að gera hlutina almennilega.

Ég er ekki dómbær heldur hef ég afskaplega takmarkaða reynslu af framkvæmd þessara nýju laga um opinber fjármál. En eftir því sem á líður kemur alltaf betur og betur í ljós að lögin virka ekki alveg jafn vel og fólk vonaði. Það hafði góðar væntingar í upphafi. Ljóst er að lögin gilda engu að síður. Samkvæmt þeim eru þrjú skilyrði sem fara þarf eftir, sem hefur verið ansi mikið rætt um síðustu daga, að öll frávik sem koma inn á fjárauka verði að vera tímabundin, ófyrirséð og óumflýjanleg eða óhjákvæmileg.

Síðan er það spurningin um nákvæma tilhögun varasjóðanna. Af því að ég vil vera lausnamiðaður spyr ég: Hvernig er hægt að laga þetta? Það eru nokkrar leiðir sem eru nokkuð augljósar. Ein er sú að við aukum aðeins í fjárlögin fyrir framhaldsskólana sem Píratar hafa lagt fram breytingartillögu um, og ég vona að gangi í gegn í kvöld vegna þess að það væri langeinfaldasta leiðin til þess að laga þetta. Önnur leið væri að minnka almenna varasjóðinn sem því nemur. Þá erum við á sama stað, en þá breytum við ekki afgangnum af ríkisrekstrinum, þá verða ekki 1,4% í afgang, eða hvað það er mikill afgangur sem ríkisstjórnin ætlar sér að skila í ríkisrekstrinum. Það er ein leið. En það þýðir að almenni varasjóðurinn er aðeins lægri.

Það er áhugavert að skoða hvernig almenni varasjóðurinn hefur verið notaður síðustu árin. Ég fór í gegnum fjáraukalagafrumvarpið áðan og skoðaði hvern lið fyrir sig. Það voru ansi víða sérstakar breytingar. Ein þeirra var aukning í almennan varasjóð vegna kaupa á landinu í kringum Geysi, sem er í mínum huga einskiptisaðgerð, það er alla vega til skamms tíma, en það er ekki ófyrirsjáanleg aðgerð þar sem heimild var fyrir því í fjárlögum ársins 2017. Og þetta var ekki óhjákvæmilegt þar sem hægt hefði verið að fresta þessu fyrst ekki var búið að gera ráð fyrir peningnum í það.

Þetta er vangaveltur um þetta mál. Ég er nokkuð sannfærður um að ríkisstjórnin ætli ekki að byrja stjórnartíð sína á því að fara í 300 millj. kr. klúður í framhaldsskólakerfinu, en hún hefur þó sagst vilja taka vel til þar og er ýmislegt sem bendir til þess að henni sé alvara með það. Þá verðum við að leysa það. Við verðum bara að leysa þetta mál í kvöld. Tillaga Pírata sem liggur fyrir er lausnin á þessum vanda. Við getum hnikað til þessum almenna varasjóði til þess að mæta þessu ef því er að skipta. Mér er í raun alveg sama hvort við gerum það eða ekki. En við verðum að laga þetta. Það er algjörlega klárt.

Svo er annað mál sem ég ræddi stuttlega í störfum þingsins í gær. Nú á dögunum komu fréttir frá Bandaríkjunum að Donald Trump Bandaríkjaforseti hefði tekið alveg svakalegt fýlukast og ákveðið í einhverri mestu og fáránlegustu diplómatísku aðgerð sem ég hef orðið vitni að, að minnka framlög til Sameinuðu þjóðanna um 258 milljónir bandaríkjadollara, sem eru væntanlega í kringum 25 milljarða kr., ef ég misreikna mig ekki. Það er vissulega mikill peningur. Hann skiptir miklu máli fyrir stofnun eins og Sameinuðu þjóðirnar. Það er erfitt að fyrir fólk úti í samfélaginu að átta sig á því hvað Sameinuðu þjóðirnar gera dagsdaglega og hvers vegna þessi litla ákvörðun að flytja sendiráð Bandaríkjanna frá Tel Aviv til Jerúsalem skiptir einhverju máli.

Ég ætla ekki að fara að rekja sögu ályktana Sameinuðu þjóðanna nr. 181 og 194 hér, eða sögu seinni „intifödunnar“, enda er það kannski of langsótt, en við verðum að átta okkur á því að tekin var ákvörðun um allan heim á sínum tíma um að lönd heimsins skyldu ekki vera með sendiráð í Jerúsalem fyrr en búið væri að leysa úr deilu Ísraela og Palestínumanna með sómasamlegum hætti. Bandaríkin voru ekki með sendiráð í Jerúsalem á þeim tíma, en Brasilía og Tsjad og ótal önnur lönd hér og þar fluttu sendiráð sín burt frá Jerúsalem til þess að leysa úr þessu vandamáli. Þannig hefur málið staðið. Deilan hefur smám saman verið að mjakast í rétta átt yfir margra áratugaskeið.

Svo kemur þessi maður, forseti Bandaríkjanna, og snýr í rauninni borðinu við, byrjar að valda alls konar óskunda. Einn ágætisblaðamaður sagði eftir ákvörðun Sameinuðu þjóðanna sem lá fyrir um daginn: Nú verður leikföngum kastað. Vegna þess að það er í raun tilfinningin sem fær maður út frá ákvörðun Donalds Trumps, forseta Bandaríkjanna, að hann gefi yfirlýsingar í einhverjum barnaskap og beri enga virðingu fyrir því sem þó hefur áunnist í þeirri ömurlegu krísu sem staðið hefur yfir á milli Palestínu og Ísraels í áratugi.

Við Píratar höfum lagt fram breytingartillögu sem kemur inn nú í kvöld sem snýst hreinlega um að reyna að vinna aðeins á móti frekjukasti forsetans. Tillaga okkar er sú að Ísland greiði smávegis af þessum 25 milljörðum, litlar 100 millj. kr., sem er nokkuð stór biti en samt í hóflegu samhengi við núverandi fjárframlög Íslands til Sameinuðu þjóðanna, og að við aukum framlög okkar til Sameinuðu þjóðanna sem því nemur sem okkar skerf í hópi þeirra 193 landa Sameinuðu þjóðanna sem eftir eru ef Bandaríkin ákveða að vera áfram í þessu barnalega fýlukasti. Vonandi myndu önnur lönd fylgja í kjölfarið og tryggja þannig vinnuna sem Sameinuðu þjóðirnar standa fyrir.

Það voru tvö lönd sem sátu hjá í nýlegri atkvæðagreiðslu um þetta mál á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, Suður-Súdan og Úganda. Þessi tvö lönd sátu kannski hjá vegna þess að fylgt höfðu hótanir um að þróunaraðstoð yrði felld niður til þeirra landa sem mundu greiða atkvæði gegn Bandaríkjunum í þessu máli.

Það vita ekki allir af því að nú eru mikil mannúðarvandamál af ýmsu tagi í Suður-Súdan og hefur það m.a. leitt til þess að bara frá því í október í fyrra var stórt svæði í norðurhluta Úganda autt. Þetta voru í rauninni bara stór tún. Síðan þá og fram til þessa tíma hafa í kringum 600.000 manns flutt frá Suður-Súdan yfir á þetta tún í norðurhluta Úganda sem flóttamenn. Þetta er risastórar flóttamannabúðir sem verða til vegna átaka í Suður-Súdan. Þessar flóttamannabúðir eru fjármagnaðar mjög takmarkað. Þær hafa afskaplega litla burði til þess að reka sig. Það koma upp ýmiss konar vandamál þegar tvöfaldur íbúafjöldi Íslands er allt í einu fluttur á einu ári inn á landsvæði sem er miklu minna en Ísland þar sem eru afskaplega litlar auðlindir til staðar.

Ég þekki fólk sem starfað hefur í þessum flóttamannabúðum og hef séð myndir þaðan. Það er í rauninni alveg merkilegt hvað hefur þó tekist að gera til þess að byggja upp eitthvað sem minnir á mannsæmandi líf fyrir það fólk sem flúið hefur þessi átök. En þetta er bara eitt af ótal dæmum um verkefni sem Sameinuðu þjóðirnar koma að og reyna að stuðla að heimsfriði, sem Bandaríkjaforseti hefur nú stefnt í voða á mjög viðkvæmu svæði með barnaskap og frekju.

Það er algjör skylda okkar að við hlaupum undir bagga með Sameinuðu þjóðunum, að við tryggjum að sú vinna sem þar fer fram nái að halda sínu striki í það allra minnsta vegna þess að það er margt fleira sem við gætum gert. Það eru mjög stór vandamál t.d. í Mjanmar á svæðum þar sem Róhingja-fólkið býr. Það eru vandamál viðvarandi í Norður-Kóreu. Það eru vandamál víða um heim. Við getum, heimsbyggðin öll, lagað þetta saman, en þá þurfa forsetar í Bandaríkjunum og kannski víðar að taka aðeins færri frekjuköst og vera með aðeins minni barnaskap, en smáþjóðir eins og Ísland þurfa kannski að láta aðeins meira renna úr okkar pyngju til þess að styðja við þessi góðu verk. Annars eru verkefni eins og Óslóarferlið, sem stóð yfir 1993–1995, í rauninni dauðadæmd vegna þess að samstaða er ekki til staðar. Pólitíkin og veruleikinn á jörðinni tvinnast saman á ótal vegu. Við verðum að standa okkar plikt hér.