148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[21:58]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegur forseti. Þegar maður er nýgræðingur í stjórnmálum eins og ég er óneitanlega þá kemst maður smám saman að því að ekki er allt sem sýnist. Loforð eru stundum bara orð sem lofa sjálf sig frekar en því sem þau snúast um, eru stundum bara holorð. Í mennta- og menningarmálum er núna t.d. boðuð margumrædd stórsókn í stjórnarsáttmála sem lítur mjög vel út og það er engin ástæða til að efast um góð áform og góðan hug hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. menntamálaráðherra í þeim efnum, ekki mun standa á okkur í Samfylkingunni að styðja þau áform. En óneitanlega verður maður dálítið hugsi varðandi efni sem maður fylgdist vel með fyrir kosningar og þegar maður fylgist svo með þeim umbreytingum og stökkbreytingum sem eiga sér stað á kosningaloforðum á leið sinni úr stjórnarsáttmála og í fjárlagafrumvarp.

Fyrir kosningar talaði hæstv. menntamálaráðherra Lilja Alfreðsdóttir mikið fyrir afnámi virðisaukaskatts á bækur og fylgdi því svo eftir í stjórnarsáttmála, en þegar kom að frumvarpi til fjárlaga þá brá svo við að afnám bókaskattsins er farið að heita í munni hæstv. ráðherra heildstæð nálgun. Hún er farin að tala um fjölmiðla og tónlist og meira að segja málefni gjörvallrar íslenskrar tungu í þessu sambandi. Sjálfstæðismenn hafa gripið þetta á lofti og jafnvel stöku hv. þingmaður Vinstri grænna og eru farnir að tengja þetta við afnám virðisaukaskatts á fjölmiðla, prentmiðla og margir eru greinilega viljugir til þess að drepa þessu brýna menningarmáli á dreif hvað sem líður góðum áformum og vilja hæstv. menntamálaráðherra. Þannig fór um loforð það að sinni, en við sjáum hvað setur.

Hér á við að vitnað í ræðu skáldsins góða, Sigurðar Pálssonar, þegar hann minnti stjórnmálamenn á svikin fyrirheit, en Sigurður Pálsson sagði í ræðu sinni og vitnaði þar óbeint í Gertrud Stein, með leyfi forseta:

„Loforð er loforð er loforð er loforð.“

Og loforð er loforð. Í morgun urðum við vitni að öðru slíku loforði. Fallið var frá breytingartillögu þess efnis að láta iðnnema standa straum af efniskostnaði sínum. Er sá kostnaður sem af því hlýst upp á 300 millj. kr., enda um að ræða ósanngjarna gjaldtöku á iðnnema sem er til þess fallin að mismuna þeim og bóknámsnemum og þykir þó mörgum nóg um í þeim efnum. Við erum flest sammála því og þeirri stefnu menntamálaráðherra að efla iðnnám og hvetja efnilega nemendur á því sviði til að fara í iðnnám, hætta að beina fólki sjálfvirkt í bóknám.

Í morgun barst sem sé hingað inn í salinn tilkynning á elleftu stundu, fagnaðarríkri stundu, um að fallið yrði frá þessari tillögu. Þá braust út hljóðlátur fögnuður hér í þessum sal.

Nú er hins vegar að því er virðist að koma á daginn að það sé komið babb í bátinn því fjármögnun á þessari tillögu virðist ekki hafa verið fullrædd eða fullhugsuð. Verður fé tekið úr varasjóðum eins og gildir þegar um eldgos og neyðarráðstafanir er að ræða? Það hljómar ekki vel. Verður málið fjármagnað með fjáraukalögum næsta árs? Það er snúið viðfangs eins og við höfum fengið að heyra margvíslegar og fróðlegar útlistanir hér í kvöld og eigum kannski eftir að heyra meira um. Verður þetta þá tekið af öðrum fjárveitingum til framhaldsskólanna? Það skulum við vona að standi ekki til.

Virðulegi forseti. Mig langar að gera annað mál lítillega að umtalsefni, annað loforð, annað fagurt fyrirheit. Það snýst um kolefnisgjöld og lækkun á hækkun þeirra gjalda frá fjárlagafrumvarpi síðustu ríkisstjórnar sem við sjáum hér í nýju fjárlagafrumvarpi. Ég geri mér grein fyrir því að svona mál eru komin undir samningum og samkomulagi milli þeirra flokka sem standa saman að ríkisstjórn. En ég hlýt þó að minna á að hér er um að ræða eitt af þeim meginmálum sem Vinstri græn voru beinlínis stofnuð utan um, eitt af þeim stóru grundvallarmálum þar sem Vinstri græn töldu sig hafa fram að færa réttari og betri og sannari stefnu en allir hinir flokkarnir.

Í umræðu núna um stefnuræðu forsætisráðherra sagði hæstv. umhverfisráðherra, með leyfi forseta:

„Þá telja Vinstri græn brýnt að ráðast í heildarendurskoðun á grænum sköttum sem stuðla að og hvetja til loftslagsvænna ákvarðana. Hækkun kolefnisgjalds um 50% er fyrsti áfanginn á þeirri vegferð.“

Þetta er ekki sterkt til orða tekið sé miðað við stefnuyfirlýsingu þar sem segir, með leyfi forseta:

„Kolefnisgjald verður hækkað um 50% strax í upphafi kjörtímabils og verður svo áfram hækkað á næstu árum í takt við væntanlega aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Undanþágum frá kolefnisgjaldi verður fækkað.“

Í fjárlagafrumvarpi Bjarna Benediktssonar sem lagt er fram í umboði sitjandi ríkisstjórnarflokka segir á bls. 85, með leyfi forseta:

„Unnið er að heildarúttekt á skattlagningu ökutækja og eldsneytis. Stendur sú vinna yfir í starfshópi sem fjármála- og efnahagsráðherra skipaði í febrúar 2016 en honum er ætlað að gera tillögur um framtíðarstefnu stjórnvalda í þessum efnum. Tillögur hans eiga m.a. að taka mið af því að skattlagningin stuðli að minni losun gróðurhúsalofttegunda, tryggi ríkissjóði nægar tekjur til að standa undir viðhaldi og uppbyggingu samgöngumannvirkja og dragi úr skattlagningu við eign og öflun ökutækja.“

Í þessu samhengi er rétt að geta þess að heildarúttekt var raunar gefin út í júní árið 2008. Það mætti því ætla að vandinn liggi fyrir og úrlausnarefni blasi við.

Samþykki Alþingi þetta fjárlagafrumvarp eins og stendur að ofan og margt sýnist benda til að verði gert, þá verður það með öðrum orðum alfarið á hendi hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra Bjarna Benediktssonar hvort og þá hvenær eitthvað verður gert til þess að draga úr losun fólksbíla. Það hefur verið áætlað að 100% hækkun kolefnisgjalds eins og stóð til af hálfu síðustu ríkisstjórnar hefði kostað bíleigendur u.þ.b. 12.000 kr. sé miðað við 10.000 km akstur á ári. Við höfum heyrt þá viðbáru gegn hækkun á kolefnisgjaldi að hér sé um að ræða sérstakan skatt á landsbyggðina eins og landsbyggðin sé eitthvert eitt mengi, einhver einn hópur og bara einsleitt fólk sem þar búi og hafi allt sams konar hagsmuni af því að geta keypt ódýrt bensín. Mér vitanlega hefur þetta samt aldrei verið kannað eða rannsakað hjá t.d. Hagstofunni eða hjá Umhverfisstofnun. Mér vitanlega eru engin gögn til sem styðja þessa fullyrðingu.

Sennilega kostar kolefnisgjald mest fyrir fólk eins og mig en ég ek hingað til vinnu daglega og svo heim aftur út á Álftanes þar sem ég bý. Þess má reyndar geta að Álftanes er í sama sveitarfélagi og hæstv. fjármálaráðherra býr í og heitir Garðabær. Mestur er með öðrum orðum trúlega kostnaðurinn fyrir fólk sem ekur til Reykjavíkur daglega úr nágrannasveitarfélögunum frá Garðabæ, Hafnarfirði, Kópavogi eða norðan að frá Mosfellsbæ. Hver veit nema sá dagur kunni einhvern tímann að rísa að við hæstv. fjármálaráðherra verðum samferða í vinnuna hingað til Reykjavíkur í rafmagnsstrætó.

Samgöngur eru stærsta uppspretta losunar koltvísýrings á Íslandi, þ.e. þeim hluta sem fellur undir aðgerðir stjórnvalda hér heima. Við verðum þess vegna að draga mjög skarpt úr bílaumferð og skipta út bensín- eða dísilbílum fyrir rafbíla. Við höfum tólf ár til stefnu.

Virðulegi forseti. Ágreiningur um þetta fjárlagafrumvarp snýst um það sama og ágreiningur í stjórnmálum yfirleitt, hvernig við skiptum með okkur gæðunum í samfélaginu og aðgang að gæðunum í samfélaginu og hvernig við skiptum með okkur byrðunum af því að standa straum af sameiginlegum verkefnum samfélagsins í samgöngum og menntamálum og heilbrigðismálum og þar fram eftir götunum. Jafnaðarmenn telja að hlutverk stjórnvalda sé að sjá til þess að allir hafi jöfn tækifæri til þess að gera það besta úr hæfileikum sínum og upplagi, allir hafi tækifæri til að njóta sín í samfélagi við annað fólk og um leið búa í haginn fyrir heilbrigt atvinnulíf, sjá til þess að fjölbreytt starfsemi blómstri. Hér er um að ræða (Forseti hringir.) fjárfestingu samfélagsins í einkaframtakinu og fjárfestingu einkaframtaksins í samfélaginu. (Forseti hringir.) Verkefnið snýst um þetta samspil.