148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[22:14]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er alltaf gaman að hlusta á hv. þingmann.

Eitt af þeim orðum sem hann notaði svolítið mikið af var hugtakið og orðið loforð. Ég er með svolítið skrýtna skoðun, ég hugsa að hún hljóti að þykja skrýtin, á kosningaloforðum sérstaklega, eða loforðum í samhengi við stjórnmál. Það er nefnilega þannig að stjórnmálamenn stjórna ekki framtíðinni. Þeir sjá ekki fyrir allar aðstæður. Þess vegna hefur mér í ákveðinn tíma verið í nöp við þetta hugtak og að við séum að nota það í stjórnmálum. Nú átta ég mig á því að þetta er sennilega minnihlutaskoðun, vissulega, meðal þjóðarinnar og eflaust hér á Alþingi líka. En mér finnst það alveg þess virði að við veltum aðeins fyrir okkur ábyrgðinni sem felst í því að lofa einhverju.

Þegar ég var þingmaður síðast frá 2013–2016 fékk ég mikið af pósti frá fólki sem var í miklum vandræðum með eitthvað og vildi lausn á sínum málum. Það sem ég vandi mig á var að segja við þetta fólk að ég vildi ekki lofa því einhverju, segja því að ég myndi gera eitthvað sem ég sæi ekki fram á hvernig ég myndi gera, og sér í lagi þegar kom að almannatryggingum. Nú er ég reyndar að fara aðeins of mikið út úr fyrir þetta stutta svar.

Það sem ég velti fyrir mér er: Hv. þingmaður talaði um loforð. Ég hef kannski misskilið þetta, en ég skil það í samhenginu við kosningaloforð. Ég lít aðeins öðruvísi á þetta. Ég lít á það þannig að flokkar eigi að bjóða fram stefnu og sýn, lofa að gera sitt besta, lofa heilindum, lofa öllu því, en við stjórnum ekki aðstæðum.

Nú erum við með flokk í ríkisstjórn sem heitir Vinstrihreyfingin – grænt framboð og þá finnst mér í raun og veru — óháð loforðunum sem hún kann að hafa lagt fram eða einhverjir kjósendur hafa túlkað sem loforð eða hvað eina, og það er eðli flokksins sjálfs að hann er vinstri hreyfing — hún hljóta að taka undir með hv. þingmanni.

Vegna þess að hv. þingmaður fór svo mikið út í þessa loforðapælingu (Forseti hringir.) langaði mig að spyrja hv. þingmann aðeins út í þetta.