148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[22:16]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að gefa virðulegum forseta loforð um að ég mun ekki fara fram yfir þann tíma sem mér er ætlaður og mældur hér.

En ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna og þessar hugrenningar, þessa hugleiðingu, þessa þörfu hugleiðingu um orðið loforð sem við notum kannski allt of mikið í pólitískri umræðu dagsins. Manni finnst stundum dálítið eins og kjósendur hugsi um sig sem einhvers konar neytendur, þeir séu neytendur og stjórnmálamenn séu varningur á markaði og kjósandinn sé svona frammi fyrir einhverri hillu og hann sé að velja úr þeirri hillu það sem honum lýst best á og stjórnmálamennirnir reyna þá að gera sig að sem girnilegustum varningi með loforðum. Reyna þá að höfða til einhverra ólíkra hópa kjósenda með loforðum um tiltekin úrræði sem kunna að gagnast kjósendum hverju sinni í dagsins önn í þeirra lífi. Það fer kannski minna fyrir því að stjórnmál snúist um grundvallaratriði, grundvallarstefnu og stjórnmálamenn leggi fram sína grundvallarstefnu og sína grundvallarsýn á lífið og biðji kjósendur um að treysta sér til að fylgja fram þeirri grundvallarstefnu við úrlausn vandamála og við ákvarðanir á þeim alls konar málum sem upp kunna að koma.

Nú þori ég ekki annað en að ljúka máli mínu því ljósið er farið að blikka, virðulegur forseti.