148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[22:18]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Blíður járnagi forseta skilar sínu eins og venjulega. — Dottið úr mér hvað ég ætlaði að spyrja hv. þingmann að.

Í sambandi við þessi loforð. Þegar við segjum eitthvað í kosningabaráttu finnst mér það vera spurning um, ja, vegna þess að hv. þingmaður nefndi að kjósendur treysti sumum stjórnmálamönnum til að gera það sem þeir segja. Mér finnst mikilvægt að stjórnmálamenn geri það sem þeir segja. Þess vegna finnst mér svo mikilvægt að þeir segi ekki alltaf að þeir ætli að gera eitthvað sem þeir geta síðan ekki endilega staðið við. Úr þessu verður þessi fáránlega samkeppni í kosningabaráttu. Við könnumst öll við það, alla vega flest sem höfum verið í framboði. Okkur er stillt upp á fundi og hópur af fólki sem heimtar eitthvað. Mér er nú minnisstæðast tryggingagjaldið, því að síðan var greitt atkvæði gegn því áðan, þegar allir flokkar höfðu „lofað“ því nema Píratar ef út í það er farið.

Ábyrgð okkar í stjórnmálum hlýtur að felast líka í því að ef við ætlum að standa við það sem við segjum þá þurfum við að passa hvað við segjum og við þurfum þá einhvern veginn að standast þá samkeppni sem við lendum í að vera alltaf að lofa hlutum án þess að vita hvernig við ætlum að útfæra það. Þetta gerist líka í sambandi við tímaskort og aðstoðarskort hérna á Alþingi. Eða þegar flokkar kvarta undan því að hafa ekki tíma þá koma aðrir þingmenn og þeir láta eins og það sé bara einhver aumingjaskapur; auðvitað ættu allir þingmenn að lesa öll þingmálin, öll 800 málin á hverju þingi eða hvað það er. Í alvöru. Samkeppnin verður svona einhvern veginn að þykjast: Ég get þetta. Og alltaf í talaða orðinu en ekki í því að gera.

Ég er á því að ábyrgð okkar felist ekki bara í því að standa við einhver loforð. Ábyrgð okkar felst í því að koma þeim skilaboðum á framfæri hvað það er sem við getum og viðurkenna að við getum ekki gert allt.