148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[22:25]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi andsvör. Vandi íslenskrar bókaútgáfu er margþættur og ekki nýtilkominn og hefur kannski alltaf fylgt þessum bransa sem er dálítið eins og síldarbransinn; stundum gefur vel og stundum gefur ævintýralega vel og stundum eru gæftir mjög slæmar og lélegar, það er aldrei á vísan að róa í bókaútgáfu. Seinni árin hefur ýmislegt verið bókaútgáfu mótdrægt. Þar koma til breyttar neysluvenjur fólks, minnkandi lestur, minnkandi bóksala svona í það heila tekið. Því er ekki að neita að álögur hafa sitt að segja og þær aðstæður sem ríkið hefur búið þessari atvinnugrein hafa ekki verið nægilega góðar.

Ég tek það hins vegar fram að ég er alls ekki úrkula vonar um að ásetningur menntamálaráðherra um úrbætur á þessu sviði nái ekki fram að ganga. Ég bind satt að segja vonir við að bókaskattur verði afnuminn fyrr en síðar og gripið verði til margvíslegra annarra aðgerða sem eru brýnar til að styðja við þessa mikilvægu menningargrein.