148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[22:29]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er svo mikið að vanda mig við að halda mig innan tímarammans, eftir áminningu virðulegs forseta áðan, að ég komst ekki yfir að svara seinni spurningu hv. þingmanns áðan varðandi iðnnám og raunar hef ég ekki svar við þeirri spurningu. En ég ítreka nauðsyn þess að iðnnám sé eflt stórlega hér á landi og að ungu fólki sem hefur hæfileika á þeim sviðum sé beint í iðnnám frekar en bóknám.

Varðandi þetta skífurit — nei, ég verð að játa að ég hef ekki séð það. En hins vegar er það svo varðandi þennan útblástur að við þurfum að beita öllum ráðum, hvar sem því verður við komið, hvort sem um er að ræða endurheimt votlendis, sem hv. þingmaður er að vísa til — og vissulega var gengið allt of langt fram í framræsingu mýra hér á síðustu öld — og eins þurfum við að rafvæða bílaflotann og draga stórkostlega úr útblæstri bíla með öllum ráðum, hvernig sem því verður við komið.

Mér hefur fundist að þessi umræða um kolefnisgjaldið í þessari fjárlagaumræðu snerist svolítið um að það væri fjáröflunarleið fyrir ríkissjóð og ekki skal ég gera lítið úr mikilvægi þess. En mér fannst umhverfisþátturinn aðeins gleymast en hann er náttúrlega mikilvægastur af öllu.