148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[22:30]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það var áhugavert að hlusta á samræður tveggja hv. þingmanna um loforð. Það má vel vera að stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn taki full stórt upp í sig. Svo því sé til haga haldið er kannski erfitt að ætlast til þess að menn efni öll sín loforð eftir kosningar, sérstaklega í kerfi eins og við búum við þar sem er ekki hefð fyrir því að það séu yfirgnæfandi líkur á því að flokkar sem eiga samleið og eru nágrannar í stjórnmálum bindist samtökum eftir kosningar og myndi stjórn. Sú stjórn sem mynduð var núna er auðvitað engin undantekning frá því. Margir sögðu að þetta væri samstarf þeirra flokka sem lægju yst á litrófi stjórnmálanna. Ég er reyndar ekki sammála því. Það er ýmislegt og margt sem skilur Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkinn að á þessum hefðbundna vinstri/hægri ás, en í stjórnmálum eru til svo ótal aðrar víddir eins og þjóðernishyggja, alþjóðahyggja, stjórnlyndi, frjálslyndi og ýmislegt annað. Í stjórnarsáttmálanum kemur ágætlega fram að þessir þrír flokkar sem þó mynduðu ríkisstjórn ná býsna vel saman á mörgum sviðum mannlífsins þar sem við hefðum þurft að gera róttækar breytingar, kerfisbreytingar. Þá á ég við í gjaldmiðlamálum, ég nefni landbúnaðarmál og sjávarútvegsmál, en nóg um það.

Það hafa farið fram tvennar kosningar á rúmu ári þar sem stjórnmálaflokkar lofuðu einmitt mjög miklu. Flestir vildu gera stórsókn í innviðauppbyggingu í heilbrigðiskerfinu, menntamálum og samgöngumálum ekki síst. Síðan voru nokkrir flokkar sem fyrir báðar þessar kosningar lögðu mikla áherslu á félagslegan stöðugleika, byggja hann upp, og sögðu hann ekki bara vera réttlætismál heldur líka vísustu leiðina til þess að ná friði á vinnumarkaði þannig að fólk sem neyðist til að búa við verstu kjörin þyrfti ekki að lifa sífellt í þeim ótta að við minnstu áföll eins og veikindi og slys, eins og það að klessa bílinn, eins og það að barnið týni dýrum útigalla, yrði fjölskyldulífið og efnahagur heimilisins sett á annan endann.

Það má eiginlega segja að fyrir þessar kosningar að hafi málflutningur sérstaklega tveggja flokka, Samfylkingar og Vinstri grænna, snúist mjög um þessi atriði, þ.e. að nálgast hið norræna velferðarkerfi og hið norræna líkan sem byggir á þremur stoðum; efnahagslegum stöðugleika, frjálsum samningum á vinnumarkaði milli atvinnurekenda og opinberra aðila annars vegar og launþega hins vegar og í þriðja lagi félagslegum stöðugleika.

Á Norðurlöndunum er það nefnilega ekki þannig að félagslegur stöðugleiki sé notaður sem skiptimynt til þess að fá launþega til að draga jafnvel úr kröfum sínum og sættast á eitthvað minna en ella, heldur er hann forsenda þess að fólk geti búið við öryggi. Þess vegna eru vonbrigðin svo mikil í mínum huga með það að þáverandi stjórnarandstöðu, sem náði meiri hluta í þessum kosningum, skyldi ekki auðnast að mynda stjórn frá miðju til vinstri einkum um þessi verkefni. Önnur voru brýn líka sem var uppgjör við spillingu, leyndarhyggju og frændhygli, sem var eingöngu mögulegt með því að halda Sjálfstæðisflokknum utan borðs.

Það tókst ekki og þýðir ekkert að bölva því. En það hefði aukið líkurnar á því að flokkarnir hefðu getað efnt betur þau loforð sem þeir gáfu. Þess vegna er ég enn þá svolítið skotinn í þeim málflutningi sem einkum hefur komið frá Pírötum að línurnar eigi að vera skýrari við kosningar. Ég held að það sé kannski ekki gott að það komi í ljós tveimur, þremur vikum fyrir kosningar eins og tilraun var gerð með fyrir þarsíðustu kosningar, heldur að það skapist á endanum ákveðin hefð sem geri kjósendum það algjörlega ljóst fyrir kosningar hvaða mynstur megi sjá fyrir sér. Núna er þetta pínu eins og rússnesk rúlletta eða eins og að fara inn á matsölustað þar sem eru 20 réttir á matseðlinum og mjög auðveldlega hægt að búa til endalausar útgáfur með góðum samsetningum, en þú getur líka snúið hjóli og það kemur í ljós hvort þú færð kjöt með sojasósu eða hrísgrjónum eða karrý eða einhverju öðru. Þetta er of tilviljunarkennt. Við verðum að hverfa frá því, held ég.

Ég held að þetta fjárlagafrumvarp, stjórnarsáttmálinn og þessi upptaktur að nýju kjörtímabili sem mögulega stendur í þrjú og hálft ár, fjögur ár, segi okkur það að við getum ekki búið við þetta lengur.

Vonbrigðin snúa líka að því að í stjórnarsáttmálanum voru boðuð ný vinnubrögð. Þau vinnubrögð áttu ekki síst að felast í því að minni hluti og meiri hluti ættu að vinna nánar saman til að gera hlutina skilvirkari og betri og að efla rödd minni hlutans. Það er hvergi í þróuðu vestrænu ríki, nema kannski Bandaríkjunum, hefð fyrir því að sá sem vinnur með minnsta mögulega mun hirði bara allt. Minni hlutinn á alltaf sinn rétt. Í þroskuðu lýðræði hljóta 49% þjóðarinnar að eiga sinn skýlausa rétt.

Þess vegna voru það vonbrigði strax frá upphafi þegar okkur varð ljóst að það átti ekki að verða við neinum okkar óskum um nefndaskipan eða í hvaða nefndum við hefðum forystu eða neitt, því var öllu hafnað. Þegar koma svo breytingartillögur sem hljóta að falla a.m.k. tveimur af þremur flokkum í ríkisstjórn í geð, þá virðist ekki vera hægt að verða við því vegna þess að þau eru að vinna með svo ólíkum aðila í stjórn að það er allt í járnum, það er búið að læsa öllu. Að síðustu eru náttúrlega vonbrigðin stærst þegar litið er til þess hverjir eru látnir mæta afgangi.

Ég ætla svo sannarlega að fagna uppbyggingu í heilbrigðiskerfi og menntakerfi þó að betur mætti gera, en það er alla vega gott og mjór er mikils vísir. Það er ágætt líka að það sé aðeins sett í samgöngumálin þó að það sé langt frá því sem lofað var í samþykktri samgönguáætlun 2016. En það er ömurlegt að ekkert eigi að gera fyrir hina verst settu sem eiga alltaf að bíða því það er aldrei til peningur, það er aldrei rétti tíminn. Við höfum aldrei efni á því að gera neitt fyrir þau. Þá er ég auðvitað að tala um aldraða, ég er að tala um öryrkja, ungt fjölskyldufólk, ég er að tala um fátæk börn.

Manni hefði fundist að þær breytingartillögur sem voru lagðar fram af ýmsum flokkum hefðu margar átt að verða liður í því að sýna minnsta vott um að virða réttindi þessa fólks. Af mörgum tillögum Samfylkingarinnar t.d. gæti ég nefnt barna- og vaxtabætur, ég gæti nefnt aukna peninga í málefni aldraðra, ég gæti nefnt aura til öryrkja, en þessu var öllu hafnað. Það finnst mér eiginlega ömurlegast.

Síðasta hálmstrá ríkisstjórnarinnar að gera eitthvað raunverulegt í velferðarmálum birtist í morgun þegar fram komu í breytingartillögur sem voru mjög hógværar eins og sú að fólk undir lágmarkslaunum nyti óskertra barnabóta, eða að fólk sem býr í hóflegu húsnæði sem hefur þrefaldast eða fjórfaldast að verðmæti á síðustu árum án þess að það geti eitthvað að því gert njóti einhvers konar hagnaðar af því á meðan það er í íbúðunum, fái meiri vaxtabætur. Þessu var öllu hafnað. Mér datt í hug undir þeirri umræðu að kannski þyrfti þessi flokkur sem ég batt mestar vonir við í ríkisstjórninni og er búinn ótrúlega öflugum þingmönnum og góðri stefnu að skipta um nafn og kasta „vinstri“ úr nafninu sínu, kalla sig bara græn. En svo blasa við aðgerðirnar í loftslagsmálum sem talað er svo fjálglega um í stjórnarsáttmálanum. Þá fýkur það líka nema menn kjósi að leggja aðra merkingu í orðið grænt en umhverfismál, það er auðvitað val fólks. Umhverfismálin áttu að vera flaggskipið en það er allt of lítið haldfast þar. Það er horfið frá því að hækka kolefnisgjöld jafn mikið og var lagt til í þeirri ríkisstjórn sem síðast sat og ég var sko ekki ánægður með en sýndi þó býsna mikinn lit í umhverfismálum. Þar hverfa úr ríkissjóði 2 milljarðar sem hefði verið hægt að ná í sem tekjur og hefðu algjörlega getað nýst í hækkun barnabóta sem við lögðum til í morgun.

Svo er ég líka orðinn pínu uppgefinn á því að menn haldi að það leysist allt með því að leggja álögur á bíla. Það er nauðsynlegt og ég studdi fullt kolefnisgjald eins og það birtist í haust. En vandamálið við bílinn er ekki bara orkugjafinn, ekki bara eldsneytið þó það sé mjög slæmt og þurfi að draga úr því. Það er líka bara eiginleiki bílsins, það er hreyfanleikinn. Í dag geturðu búið 50–100 kílómetra frá vinnu og keyrt heim á kvöldin og keyrt aðra 100 til að fara á fótboltaleik og aðra 70 til þess að fara og kaupa þér í matinn, allt á einum degi. Þetta gerir að verkum að byggðin gisnar og verður ósjálfbær í sjálfu sér.

Það er því áhyggjuefni að í stjórnarsáttmálanum skuli ekki vera talað nokkuð um hið manngerða umhverfi sem er alveg örugglega sá þáttur sem myndi gera okkur kleift að ná mestum árangri í loftslagsmálum, fyrir utan að það er engum peningum í það varið í fjárlagafrumvarpinu. Ég vona að nýr umhverfisráðherra sem mér skilst að hafi komið að borðinu eftir að stjórnarsáttmálinn var saminn geri bragarbót þar á.

Á endanum verða allar ríkisstjórnar dæmdar af verkum sínum. (Forseti hringir.) Þessi nýtur stuðnings, eðlilega, (Forseti hringir.) fólk kallaði eftir samvinnu. Það er hæfileikaríkur stjórnmálamaður og vinsæll sem er forsætisráðherra. En verkin sem eru lögð fram (Forseti hringir.) í upphafi eru þess eðlis að ef ekki verður úr bætt (Forseti hringir.) þá mun fylgi þessarar stjórnar (Forseti hringir.) hverfa mjög hratt.