148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[22:46]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu, reyndar svo góða að ég hugsa að ég hlusti á hana aftur þegar ég kem heim í kvöld eða nótt eða hvenær svo sem það verður. Ég sé til, ég ætla ekki að lofa því.

Það var eiginlega fyrri hluti af ræðu hv. þingmanns sem mér þótti sérlega áhugaverður í sambandi við hvernig fer fyrir málunum hérna eftir því hvernig ríkisstjórn er mynduð. Það þarf svo sem ekki að tíunda það að núna eru þessir tveir meintu andstæðu pólar, Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkur, saman í stjórn og Framsókn sem hefur alltaf lýst sjálfum sér sem miðflokki og virðist vera frekar mótanlegur, hefur manni sýnst í gegnum tíðina, eftir samstarfsflokknum hverju sinni, sem er á ákveðinn hátt virðingarvert. Ég er þeirrar skoðunar að það hafi verið mikil mistök að fara í samstarf með Sjálfstæðisflokki. Ég held að það fari að koma í ljós frekar snemma, ég held reyndar að það hafi komi í ljós nú þegar.

Alveg eins tek ég undir það með hv. þingmanni, eins ég skildi hv. þingmann í það minnsta, að það er ekki við fólkið sjálft að sakast. Þetta er fínt fólk sem er í ríkisstjórn, fullt af frábæru fólki þarna, það má ekki gera lítið úr því, en það er eitthvað við aðstæður okkar sem veldur því að samt verða stjórnarhættirnir eins og raun ber vitni, alveg óháð því hversu fínt fólk er í ríkisstjórninni. Það er ástæðan fyrir því að ég treysti ekki endilega öðrum þingmönnum sem ég hef jafn mikið álit á eða meira álit á til þess að fara í ríkisstjórn undir slíkum kringumstæðum, án þess að það verði einhverjar kerfisbreytingar.

Hv. þingmaður nefndi að hann er kominn á þá skoðun að það ætti að vera skýrt fyrir fram með hvaða flokkum menn gætu hugsað sér að vinna í ríkisstjórn. Er það eitthvað fleira sem stendur upp úr? Ég verð að koma heildarspurningu minni að í seinna andsvari.