148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[22:48]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er margt frábært fólk í ríkisstjórn og í stjórnarflokkunum öllum, en ég er auðvitað meira sammála sumum flokkum í ríkisstjórn en öðrum. En það er þessi þvingaða staða, þetta kerfi okkar þar sem allir geta lent inni í herbergi með öllum eftir partíið sem gerir það að verkum að það er vont fyrir kjósendur og það neyðir þig til þess að fara niður á lægsta samnefnara í öllum málum. Staðreyndin er stundum sú að þetta verður hvorki fugl né fiskur. Það er í hvorugan fótinn hægt að stíga, hvorki hægri fótinn né velferðarfótinn. Það virðist blasa við núna.

Þetta eru almennar vangaveltur, vegna þess að ég ætla ekki að draga dul á það að eins og Vinstri græn töluðu fyrir kosningar eru þau a.m.k. nágrannar mínir í pólitík, þótt ég deili við þau um ýmis mál, gjaldmiðlamál, landbúnaðarmál, sjávarútvegsmál og ýmislegt annað. Þau brýnu verkefni sem við stóðum frammi fyrir voru:

A Að takast á við þann vanda sem verst stadda fólkið í samfélaginu býr við og byggja upp félagslegan stöðugleika.

B Að skora á hólm frændhygli, leyndarhyggju og spillingu sem fellt hafa tvær síðustu ríkisstjórnir.

Þetta núverandi mynstur er því ómögulegt. Þeim hefði getað tekist að gera atlögu við A en gera það ekki, B var náttúrlega af ýmsum ástæðum ómögulegt. Við þurfum ekkert að ræða það. Þess vegna hefði fyrirframgefin niðurstaða — ég þori ekki að vera lengur.