148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[22:51]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð meira og meira sammála hv. þingmanni eftir því sem hann talar lengur um þetta. En ég er líka að vona að mér takist að sannfæra hann um annað sem við höfum talað um áður, sem er þetta með að flokkar gefi út fyrir fram hverjum þeir eru reiðubúnir að vera með í ríkisstjórn. Það er þetta sem ég er stanslaust að nöldra yfir, hið furðulega samband framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins og hvernig það er ofboðslegt ósamræmi, finnst mér, á milli orðræðunnar sem er uppi um Alþingi hjá opinberum stofnunum og almenningi, myndi ég halda, og vissulega virðulegum forseta þingsins og fleirum, um það að þetta sé æðsta stofnun lýðveldisins og ráðherrar segja að fjárveitingavaldið sé hjá Alþingi en síðan þarf að ráðfæra sig við ráðherrana ef Alþingi vill fá einhverjar breytingar í gegn. Það er stórkostlega skrýtið ef maður hugsar um það. Þetta samband er að mínu mati rótin að öllu því skrýtna mynstri sem við sjáum núna.

Það hlýtur samt að vera ástæða fyrir því að það er sagt að Alþingi sé æðsta stofnun lýðveldisins og ástæða fyrir því að það er sagt að Alþingi sé með fjárveitingavaldið. Ég held að það sé ekki bara dregið úr hatti einhvers staðar, ég held að það sé vegna þess að þetta eru góðar hugmyndir. Það er góð hugmynd að æðsta stofnun lýðveldisins samanstandi af þjóðkjörnum einstaklingum sem eru kjörnir í beinum kosningum. Það er góð hugmynd að fjárveitingavaldið sé í höndum þeirrar stofnunar og ekki í höndum framkvæmdarvaldsins. En raunveruleikinn verður síðan alltaf öðruvísi. Ég tel það einu leiðina til að útskýra þetta sem væri annars algjörlega óskiljanlegt, vissulega fyrir kosningar.

Mig langar til að draga hv. þingmann meira í mína átt hvað þetta varðar.