148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[22:54]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Ég ætla að reyna að eiga hér vitsmunalegar samræður klukkan fimm mínútur í ellefu að kvöldi á þessum langa degi. Mér finnast þetta samt áhugaverðar samræður og er með smávægilegar vangaveltur varðandi vinnu okkar í þessu húsi og hvernig það fer allt fram. Ég er líka ný hérna, búin að vera í eitt ár. Ég tek alltaf eftir því betur og betur — ég velti fyrir mér um hvað þessi nýja ríkisstjórn snýst, að Sjálfstæðisflokkurinn komist til valda aftur og aftur og aftur og að það virðist ekki skipta neinu máli hvað einstaka þingmenn gera eða hvað þessi flokkur gerir; þessir þingmenn komast upp með allt. Þessir ráðherrar komast upp með allt og einhvern veginn halda þeir áfram, halda sínum valdastólum og halda áfram að stýra þessu landi.

Ég fylgist með þessari gömlu pólitík sem er í gangi, þeirri leikjafræði sem er í gangi á bak við tjöldin og hvernig þingmenn koma upp í pontu, ekki bara úr stjórninni heldur líka úr minni hlutanum, þingmenn sem hafa verið á þingi miklu lengur og hafa meiri reynslu, og það virðist vera hálfgert leikrit í gangi. Það snýst allt um að ná athygli og er í raun og veru hálfgert Morfís-rúnk, afsakið orðbragðið. Það er það sem ég finn fyrir í þingsal, að fólk kemur upp og þetta snýst allt um hver er sniðugastur að tala, hver getur sagt sem mest, sem flest orð en sem innihaldsminnst. Ég velti fyrir mér hvernig við getum breytt því og hvort núverandi ríkisstjórn sé einhvern veginn — hvort það sé hræðsla við hina nýju pólitík, hina nýju flokka sem koma á þing og bjóða upp á nýja pólitík. Er það það sem heldur þessari ríkisstjórn saman, þ.e. að reyna að stöðva (Forseti hringir.) breytingar á þingi, að hin nýja hugsjón komi inn og við breytum einhverju til góðs hérna?