148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[22:56]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla auðvitað ekki þeim flokkum sem mynduðu þessa ríkisstjórn að hafa farið í hana til þess að reyna að koma í veg fyrir ný vinnubrögð, alls ekki. En til þess að ná stefnumálum sínum fram hafa þau örugglega farið einhverja fjallabaksleið, svo milt sé til orða tekið, vegna þess að það getur varla verið léttasta leiðin að taka flokka sem eru svona ólíkir og láta þá búa til eitthvert plagg sem öllum á að þóknast. Ef maður tekur alla liti heimsins saman og hrærir í þeim fær maður grátt eða brúnt, þá fær maður ekki þessa fallegu tóna sem augu okkar geta numið. Það eru miklu meiri líkur á því að þessir tónar, þessir fallegu litir sem við eigum í heiminum, fái að skína ef ekki er blandað saman einhverju tilviljanakenndu rusli í fötu, alveg sama hvort það er Samfylking, Sjálfstæðisflokkur eða einhverjir aðrir.

Ég held að það hafi svo sem ekkert breyst með þessari ríkisstjórn, að samræðuhefð hafi versnað hér á þingi, en fyrirheit um ný vinnubrögð gefa a.m.k. ekki góðar væntingar, vegna þess eins og ég nefndi í ræðu minni þá byrjuðu menn á því á fyrsta degi á að hafna öllum tillögum stjórnarandstöðunnar um nefndir. Síðan hafa menn ekki virt viðlits breytingartillögur sem gætu þó a.m.k. gagnast einhverjum af flokkunum í ríkisstjórn til þess að standa við orð sín gagnvart eigin kjósendum. Það er það sem veldur mér áhyggjum.

Aftur og aftur kem ég að því sem við hv. þm. Helgi Hrafn töluðum um, að það væri gáfulegast að þetta lægi nokkuð skýrt fyrir fyrir fram.