148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[22:58]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Ég var nú ekki að ýja að því að vinnubrögðin hefðu farið versnandi með þessari ríkisstjórn. Ef eitthvað er þá finn ég fyrir allt öðru viðmóti og að það er allt öðruvísi að vinna með þessari ríkisstjórn en þeirri fyrri. Ég held að Vinstrihreyfingin – grænt framboð og Framsókn leggi sig örugglega mikið fram til þess að hafa aðstæður öðruvísi en þær voru hérna á seinasta kjörtímabili, sem mér fundust vera mjög slæmar.

Ég efast ekki um að fólk komi í þessa vinnu, á þing, með hugsjónir. Ég veit að ég gerði það. Ég velti bara fyrir mér hversu mikil áhrif allar þessar málamiðlanir hafi þegar maður er kominn með jafn ólíka flokka og Vinstrihreyfinguna – grænt framboð og Sjálfstæðisflokkinn í stjórn, Sjálfstæðisflokkinn sem búinn er að sýna fram á að hann fer illa með vald sitt og spilar ofboðslega ljóta leiki. Það er nokkuð sem ég hef tekið eftir. Mér finnst þetta vera svona — ég veit það ekki, ég á engin falleg orð yfir það þannig að ég ætla ekki að segja neitt meira um það.

Hversu mikil áhrif hefur það á viljann til þess að breyta þegar málamiðlanirnar eru orðnar svo miklar að siðferðislínan er komin langt frá manni? Er hægt að standa í ströngu við að breyta þegar maður er í samvinnu með þannig flokki, sem mér finnst hafa sýnt fram á það ítrekað að fer illa með vald? Það er spilling í gangi þar. Ég velti fyrir mér hvaða þýðingu það hafi fyrir svona samstarf.