148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[23:00]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi að ég gæti verið sammála hv. þingmanni um að vinnubrögðin hjá þessari ríkisstjórn hafi mikið breyst til batnaðar á miðað við þá síðustu. Ég hef ekki orðið var við það. Ég nefndi það í ræðu minni hvers vegna það væri. Málamiðlanir þurfa ekki að vera slæmar í eðli sínu, en þær þurfa heldur ekki að vera góðar. Málamiðlanir tveggja ýtrustu sjónarmiða í íslenskum stjórnmálum eru ekkert endilega það besta þegar ekki munar nema 0,5% á meiri hluta eða minni hluta eða 2% eða 1%, vegna þess að minni hluti á alltaf ríkan rétt og það þarf að virða hann. Ég nenni ekki að lifa í amerísku systemi þar sem sá sem rétt skríður yfir meirihlutatöluna ræður öllu. Það er ekki lýðræðislegt.

Ég fór líka yfir það í ræðu minni af hverju ég teldi að Sjálfstæðisflokkurinn ætti ekki að vera í þessari ríkisstjórn og ætti ekki að vera í ríkisstjórn núna. Það gerir það þá bara að verkum að við getum ekki tekist á við annað af þeim brýnu verkefnum sem við þurftum að sinna, að vinna gegn spillingu, leyndarhyggju og frændhygli.