148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[23:02]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M):

Herra forseti. Nú er þessari umræðu brátt að ljúka. Við erum öll sammála um það að þessi vinna sem fram hefur farið í tengslum við fjárlögin hefur verið unnin í mikilli tímapressu og það er aldrei vænlegt til árangurs og góðra vinnubragða að vinna verkefni af þessum toga, mikilvæg verkefni, í tímapressu.

Hér hefur mikið verið rætt um opinber fjármál. Megininntak þeirra laga er að stuðla að góðri hagstjórn og styrkri og ábyrgri stjórn opinberra fjármála. Það hefur komið fram hjá mörgum í þessari umræðu að sú vinna hefur ekki verið í anda laganna. Við þurfum að bæta okkur í þeim efnum. Við sjáum t.d. fjáraukann, hann er í hrópandi andstöðu við markmið þessara mikilvægu laga.

En það eru nokkur atriði sem mig langar að staldra við að lokum og mun ég reyna að forðast endurtekningar sem þingmenn eru orðnir þreyttir á.

Ég hef ávallt verið talsmaður ráðdeildar í fjármálum og mig langar svolítið að staldra við umsögn Seðlabankans um frumvarpið sem hefur að mínum dómi ekki fengið nægilega mikla athygli og þá athygli sem hún á skilið. Bankinn sendi í raun frá sér varnaðarorð og segir það mjög skýrt að í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar birtist ekki aðhaldssöm ríkisfjármálastefna. Hvað þýðir þetta? Minnkandi aðhald þýðir það að stýrivextir verða hækkaðir, við fáum hærri vexti og krónan styrkist. Með frumvarpinu er ríkisstjórnin því greinilega að tefla á tæpasta vað hvað varðar efnahagslegan stöðugleika að mínu mati.

Ofan á þetta allt saman stöndum við síðan frammi fyrir kjarasamningum á nýju ári. Í staðinn fyrir að búa í haginn fyrir það sem að höndum ber á nýju ári er að mínum dómi stefnt hraðbyri að efnahagslegu rauðu ljósi. Það þarf ekki mikið til við þessar aðstæður að við lendum í hringiðu verðbólgu, hækkandi verðlags og skerts kaupmáttar. Styrking krónunnar getur einnig haft slæm áhrif á okkar undirstöðuatvinnugrein, ferðaþjónustuna, og útflutningsgreinarnar almennt.

Það hefur ekki verið horft til þessa mikilvæga þáttar í fjárlagagerðinni að mínu mati. Í frumvarpinu eru t.d. heimildir til að selja eignarhlut ríkisins í bönkunum og verður að fara mjög varlega í það að taka peninga úr bönkunum. Verði það ekki gert af varfærni þýðir það innspýtingu í hagkerfið sem þýðir þá aftur hærri vexti.

Samtök atvinnulífsins hafa tekið undir þennan málflutning og sagt að aginn sé ekki að batna í ríkisfjármálunum og í fjárlagafrumvarpinu birtist þensluhvetjandi fjármálastefna. Þetta er áhyggjuefni. Mér finnst að þetta hefði þurft að fá meiri athygli í þessari umræðu.

Svo er það annað sem ég hef komið aðeins inn á áður, langar að skýra það aðeins frekar, að það vantar stefnumörkun í málaflokka eins og heilbrigðiskerfið. Ég fagna auknum fjárveitingum í þann mikilvæga málaflokk, en við verðum að hafa stefnumörkun og nýta fjármunina sem best. Það er verið að setja mikla peninga inn í Landspítalann. Landspítalinn er dýrasta úrræðið. Þetta er hátæknisjúkrahús og á að taka á móti erfiðustu tilfellunum. (Gripið fram í: Hann gerir það.) Og gerir það vissulega, það er alveg rétt, en það eru líka tilfelli þar sem væri hægt að leysa annars staðar og mun þar af leiðandi vera ódýrara. Ég er þess fullviss um að hæstv. heilbrigðisráðherra er sammála mér í þessu, að við þurfum að finna leiðir til að nýta fjármunina sem best og þetta er ein af þeim leiðum.

Aðeins varðandi menntamálin. Ég tek undir og fagna þeim auknu áherslum sem er að finna í frumvarpinu, en þar sjáum við líka þetta með stefnumörkunina sem er ekki nægileg að mínum dómi. Við þurfum að skoða hvar er mesta þörfin. Það á að setja mikla innspýtingu í háskólamenntun og háskólana. En er það rétta áherslan í menntamálum að fjölga háskólamenntuðum? Frá því um 2000 hefur háskólamenntuðum fjölgað um 184%, en störfum fyrir háskólamenntaða hefur fjölgað um 51% á sama tíma. Við höfum ekki skapað störf sem krefjast þessarar menntunar. Þarna er misræmi sem er áhyggjuefni og ég hefði viljað sjá aukna áherslu í iðn- og tæknigreinar því að það er skortur á iðnmenntuðu fólki í dag. Þar vantar ákveðna stefnumörkun hvað þennan málaflokk varðar að mínu mati. ASÍ hefur tekið undir þetta og sagt að það vanti fræðslu fyrir þá sem hafa litla menntun. Það er mikilvægt að þeim hópi sé mætt.

Þegar maður fer í gegnum svona umræðu þá spyr maður sjálfan sig hvar sé hægt að spara. Mig langar að nefna einn málaflokk sem er að vísu viðkvæmur, en það eru málefni hælisleitenda. Við sjáum að í þann málaflokk fara tæplega 2,7 milljarðar kr. Þá spyr maður sjálfan sig: Er hægt að spara þar?

Við höfum skýrslu frá ríkislögreglustjóra sem segir að þetta kerfi okkar, ágæta kerfi svo langt sem það nær, sé misnotað. Nú vil ég gera skýran greinarmun á flóttamönnum og hælisleitendum. Ég tel að við eigum að halda áfram að taka á móti kvótaflóttamönnum og gera það vel eins og við höfum gert. En það er mjög mikilvægt að koma í veg fyrir að kerfið sé misnotað því að það er mjög dýrt. Við höfum leiðir til þess. Það eru meira að segja frásagnir sem ég hef fengið frá fólki sem starfar í þessum geira að það sé í ákveðnum þorpum í Austur-Evrópu talað um að það sé svo auðvelt að koma til Íslands og það sé gott að vera hér og menn fái góðar móttökur og þetta er kannski fólk sem þarf í raun og veru ekki á því að halda.

Hæstv. dómsmálaráðherra sagði í ágætu blaðaviðtali í Morgunblaðinu rétt fyrir kosningar að það væri hægt að afgreiða þessi mál á þremur dögum. Það er mikilvægt að það sé unnið markvisst að því. Það er liður í því að þetta kerfi verði ekki misnotað.

Að lokum langar mig til þess að koma inn á annað mál sem einnig er viðkvæmt í hugum sumra þingmanna, en það eru málefni kirkjunnar. Sumum þingmönnum svíður það fjármagn sem fer til kirkjunnar á fjárlögum. En fyrir því er samkomulag, svokallað kirkjujarðasamkomulag. Þetta er nánari útfærsla á samkomulagi milli ríkisins og þjóðkirkjunnar um kirkjujarðir og launagreiðslur presta, starfsmanna þjóðkirkjunnar og rekstrarkostnaðarhluta, samkomulag frá árinu 1997. Ríkið þarf að standa við sína samninga eins og aðrir og kjarni málsins er sá að ríkið fékk allar kirkjujarðir að frátöldum prestsetrajörðum og átti í staðinn að greiða afgjald sem næmi launum 138 presta, biskupa og 17 starfsmanna á Biskupsstofu, en vegna niðurskurðar á undanförnum árum þá hefur afgjaldið nú lækkað. Það er spurning með þessar kirkjujarðir, það er svo sem hægt að setja verðmiða á þær þó svo að ég geti það ekki. Hvað kosta t.d. Þingvellir? Þessar jarðir lét kirkjan af hendi til ríkisins gegn afgjaldi.

Ég tel að þetta samkomulag sé hagur beggja aðila. Kirkjan veitir ákveðna þjónustu sem er ríkinu mikilvæg eins og t.d. að viðhalda trúarlegum menningararfi þjóðarinnar og öllu því sem viðkemur andláti einstaklingsins, sálgæslu á sjúkrastofnunum, hjúkrunarheimilum o.s.frv.

Herra forseti. Að lokum vil ég þakka nefndarmönnum í fjárlaganefnd fyrir samstarfið og formanni nefndarinnar fyrir að halda vel utan um starfið. Eins og ég segi var þetta var unnið í mikilli tímapressu en það lögðu allir sitt af mörkum. Ég vil að endingu þakka nefndarmönnum aftur fyrir samstarfið.