148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[23:38]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í því fjárlagafrumvarpi sem var lagt hér fram fyrir tveimur vikum eru stigin gríðarlega mikilvæg skref til uppbyggingar þeirra samfélagslegu innviða sem við eigum öll saman. Þar munar auðvitað mest um stóraukin framlög til heilbrigðismála sem er sá málaflokkur sem Íslendingar hafa forgangsraðað efst þegar þeir hafa verið spurðir í skoðanakönnunum og telja mikilvægast að við forgangsröðum í vinnu okkar hér. Þar nema framlög hins opinbera nú 8,5% af vergri landsframleiðslu sem er umtalsverð aukning frá fyrri fjárlögum.

Hér er líka verið að blása til sóknar í menntamálum og samgöngumálum. Hér er verið að blása til sóknar í þeirri innviðauppbyggingu sem við höfum sett á dagskrá, ekki bara fyrir síðustu kosningar heldur líka þar síðustu. Þar með er ekki sagt að verið sé að leysa öll heimsins mál, enda er það sjaldnast þannig í fjárlögum. Ég tel að við eigum að meta þessi skref sem ég tel að skipti mjög miklu máli fyrir okkar góða samfélag til að gera það enn betra og ég mun með mikilli ánægju styðja þessi fjárlög.