148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[23:39]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég ætla ekki í neina efnislega umræðu um þetta frumvarp, ég er búinn að gera nóg af því hér. Ég ætla bara að lýsa því yfir að það eru gríðarleg vonbrigði að afgreiða þessi fjárlög með þeim hætti sem við gerum nú.

Það er talsverður skortur á velferðaráherslum. Það er sömuleiðis skortur á traustum tekjugrunnum. Ég vil nota þessa atkvæðaskýringu mína til að hvetja alla þingmenn til að standa enn betur við það sem við lofuðum í aðdraganda kosninga. Ég held að við getum verið sammála um að gera miklu betur þegar kemur að nauðsynlegri innviðauppbyggingu hér á landi, að við getum verið öll samferða á þeirri vegferð. Ég vona það að minnsta kosti.