148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[23:42]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er vissulega rétt að þetta fjárlagafrumvarp felur í sér talsverða útgjaldaaukningu, reyndar svo mikla að annað eins hefur ekki sést frá því að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar reyndi að kaupa sér hamingju með útgjaldaaukningu í fjárlögum.

Í hvað er þessum peningum varið? Það er minna talað um það. Ráðherrar koma hér upp og státa sig af því hvað þeim takist að auka útgjöldin mikið, en þeir tala lítið um í hvað þessi útgjöld renna eða hvernig þau nýtast. Það er nefnilega ekkert verið að gera í því að bæta kerfin, bæta það hvernig farið er með fjármagnið. Það er t.d. ekkert gert í því að takast á við það að bæta heilbrigðiskerfið eins og landlæknir meðal margra annarra sérfræðinga hefur margítrekað bent á að þurfi að gerast.

Allt tal um stórsókn í hinum og þessum málum, t.d. í samgöngumálum þar sem er verulegur niðurskurður frá því sem gert er ráð fyrir í samgönguáætlun, er fjarstæðukennt. Það er verið að auka útgjöld á ákveðnum sviðum án þess að gera neitt í að bæta þau kerfi sem þar um ræðir en annars staðar (Forseti hringir.) er hreinn niðurskurður miðað við fyrri áform. Allt þetta tal, herra forseti, er jafn innihaldslaust og talið um að það ætti að bæta og (Forseti hringir.) styrkja stöðu Alþingis.