148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[23:44]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það gleðilega er að það lítur út fyrir að heilbrigðiskerfið muni halda sjó og hefur hæstv. heilbrigðisráðherra Svandís Svavarsdóttir lofað að tryggja það ef eitthvað kemur upp á, ef það er ekki alveg nóg á árinu. Það er gleðiefni. Ég er vongóður um að heilbrigðiskerfið verði lagað með heildstæðri stefnumótun og öðru slíku. Ég er vongóður um heilbrigðismálin.

Það sem ég er ekki vongóður um, og er eitt stærsta áhyggjuefni sem við stöndum frammi fyrir, eru kjaramálin. Í nýlegri frétt segir hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson að það þurfi að vinna að því að auka verðmætasköpun í landinu þannig að við getum bætt lífskjörin áfram. Í stjórnarsáttmálanum segir að sátt á kjaramarkaði sé grundvöllur fyrir þeim vexti. Samt sem áður segir ASÍ að þetta fjárlagafrumvarp komi ekki til móts við heildarsamtök launþega í landinu. Samtök atvinnulífsins nefndu það í sumar að ekki væri komið til móts við þau varðandi lækkun tryggingagjalds sem er ekki að sjá í tekjuöflunarfrumvörpunum þannig að það virðist ekkert vera komið til móts við aðila vinnumarkaðarins til að skapa þessa sátt. Það virðist ekki vera að gerast í alvöru og það er stórkostlegt áhættuefni fyrir okkur öll.

Og ekki virðist (Forseti hringir.) þessi ríkisstjórn ætla að lækka eða leiðrétta laun þingmanna í átt til almennrar launaþróunar, þessa launahækkun sem við fengum fyrir ári, þannig að það er mikið áhyggjuefni.